FA og Viska gera kjarasamning

31.10.2024

Félag atvinnurekenda og Viska – stéttarfélag undirrituðu í dag kjarasamning. Samningurinn er í öllum meginatriðum sambærilegur við aðra kjarasamninga sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði í yfirstandandi kjaralotu. Viska gætir hagsmuna háskólamenntaðra sérfræðinga, jafnt á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera, og á aðild að BHM. Þetta er fyrsti kjarasamningurinn sem FA gerir við aðildarfélag BHM. Hann verður kynntur félagsmönnum í FA á fundi 7. nóvember.

Viskufólk hjá um 20 fyrirtækjum í FA
Starfsmenn sem eiga aðild að Visku starfa hjá um 20 aðildarfyrirtækjum FA. „Hjá félagsmönnum FA starfar nú umtalsverður hópur félagsmanna í Visku. Með gerð kjarasamnings milli félaganna eru réttindi þessa hóps betur tryggð, sem er sameiginlegt hagsmuna- og metnaðarmál þeirra atvinnurekenda og launþega, sem eiga í hlut,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Samningurinn kveður ekki á um neina kauptaxta eða lágmarkslaun, heldur er gert ráð fyrir að um sé að ræða störf þar sem atvinnurekandi og starfsmaður semji á einstaklingsgrundvelli um markaðslaun sem endurspegla vinnuframlag, hæfni, menntun og færni starfsmannsins og innihald og ábyrgð starfsins. Í samningnum, sem gildir til 1. febrúar 2028, eru hins vegar ákvæði um sömu launahækkanir og um samdist á almenna vinnumarkaðnum fyrr á árinu.

Viska varð til um síðustu áramót með sameiningu nokkurra stéttarfélaga. Félagið byggir á norrænni fyrirmynd þar sem lögð er áhersla á samtal, samvinnu og aukna þjónustu við félagsfólk. Á næstunni verður haldið áfram að bæta við þjónustuframboð Visku og félagið verður kynnt sérstaklega fyrir aðildarfélögum FA.

„Nú geta sérfræðingar á almenna markaðnum valið úr fleiri stéttarfélögum. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við FA og sjáum fjölmörg tækifæri í því að efla þjónustu við sérfræðinga á almennum vinnumarkaði,“ segir Kristmundur Þór Ólafsson varaformaður Visku.

Samningurinn kynntur á fundi 7. nóvember
Samkvæmt lögum FA er kjarasamningurinn gerður með fyrirvara um samþykki stjórnar félagsins. Lögin kveða jafnframt á um að kynna skuli samninginn svo fljótt sem auðið er á félagsfundi og verður hann haldinn í fundarsal FA í Skeifunni 11 kl. 15 fimmtudaginn 7. nóvember. Forsvarsmenn FA og Visku munu þar fara yfir ákvæði samningsins og Georg Brynjarsson framkvæmdastjóri Visku mun kynna félagið og starfsemi þess. Skráning á fundinn er hér að neðan.

Myndin var tekin við undirritun samningsins. Frá vinstri: Kristmundur Þór Ólafsson, varaformaður Visku Júlíana Guðmundsdóttir, lögfræðingur Visku, Birta Sif Arnardóttir, lögfræðingur FA, og Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Kjarasamningur FA og Visku

Skráning á félagsfund til kynningar á kjarasamningi FA og Visku 7. nóvember 2024

Nýjar fréttir

31. október 2024

Innskráning