Félagsmenn FA hafa sjaldan lýst meiri ánægju með þjónustu og baráttu félagsins en að loknu árinu 2024. Samtals sögðust 93% svarenda í könnun FA ánægðir eða mjög ánægðir með starf félagsins í heild. Sú tala hefur ekki verið hærri í könnunum félagsins. Almenn ánægja er meðal félagsmanna með þjónustu félagsins og frammistöðu þess í helstu baráttumálum. Þannig voru um og yfir 90% ánægðir eða mjög ánægðir með lögfræðiþjónustuna, upplýsingapósta og örnámskeið fyrir félagsmenn. Jafnframt lýstu yfir 90% ánægju eða mikilli ánægju með baráttu félagsins fyrir fækkun ríkisstarfsmanna og breytingum á starfsmannalögum, einföldun regluverks og heilbrigðri samkeppni í skipaflutningum.
Í könnuninni, sem gerð var í febrúar, komu fram ummæli á borð við „FA er að standa sig betur heldur en gert hefur verið í mörg ár. Áfram veginn!“, „Fljót að svara, reynið alltaf að aðstoða og eruð aðgengileg“ og „Gott upplýsingaflæði og mikill sýnileiki“.