Félag atvinnurekenda og millilandaviðskiptaráð félagsins efna til morgunverðarfundar mánudaginn 31. mars um tollastefnu Donalds Trump Bandaríkjaforseta og áhrif hennar á Ísland. Frummælendur eru Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði, Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður og fyrrverandi utanríkisráðherra.
Við fjöllum um spurningar eins og þessar: Úr hvaða jarðvegi sprettur efnahagsstefna Donalds Trump? Hvaða áhrif gætu háir tollar á íslenskar vörur haft? Hvaða áhrif má greina nú þegar á alþjóðlegar aðfangakeðjur? Hvaða áhrif hefur óvissan í alþjóðaviðskiptum á hegðun fyrirtækja og áætlanagerð? Hvað þýðir stefnubreyting í Bandaríkjunum fyrir utanríkisstefnu Íslands? Hvaða bandalögum getum við treyst og hvaða alþjóðasamstarf setjum við í forgang? Heldur viðleitni Íslands til að efla fríverslun áfram eða drögumst við inn í hugsunarhátt verndarstefnu og viðskiptastríðs?
Fundurinn er haldinn í fundarsal Félags atvinnurekenda í Skeifunni 11, 3. hæð, kl. 8.30-9.45. Léttur morgunverður er í boði. Fundurinn er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir en skráning er nauðsynleg hér að neðan.
Aðstandendur fundarins eru, auk FA, Íslensk-evrópska verslunarráðið, Íslensk-indverska viðskiptaráðið og Íslensk-taílenska viðskiptaráðið.
Inngangur í Skeifuna 11 er á milli Lyfju og Zo-on, sunnan megin á húsinu.