Tökum í skattabremsuna

02.07.2025

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptamogganum 2. júlí 2025

Veruleg skattahækkun á fyrirtæki víða um land er í kortunum eftir birtingu fasteignamats ársins 2026 í lok maí. Að meðaltali hækkar fasteignamat atvinnueigna um 5,4% en í mörgum sveitarfélögum er hækkunin miklu meiri. Þannig hækkar matið í Vestmannaeyjum um 9,9%, um 14,7% í Mýrdalshreppi, 11,5% í Skagafirði og Vogum, 11,7% í Hveragerði og heil 39,5% í Kjósarhreppi. Að óbreyttri álagningarprósentu þýðir þetta samsvarandi skattahækkun á fyrirtækin sem eiga atvinnuhúsnæðið.

Félag atvinnurekenda hefur – eins og mörg undanfarin ár – sent öllum sveitarfélögum landsins áskorun um að mæta hækkun fasteignamatsins með lækkun álagningarprósentu þannig að skattlagningu á atvinnuhúsnæði verði haldið óbreyttri. Á undanförnum árum hafa sum sveitarfélög brugðizt betur við slíkum áskorunum en önnur, til dæmis Kópavogur, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Seltjarnarnes, Akranes og Vestmannaeyjar. Það breytir ekki því að þrátt fyrir þær lækkanir hafa tekjur sveitarfélaganna í heild af skatti á atvinnuhúsnæði hækkað um 50% að raungildi undanfarinn áratug.

Hækkunin á skattstofninum hefur ekkert með gengi í rekstri fyrirtækjanna eða getu þeirra til að greiða skatta að gera, heldur helgast af óeðlilegum sveiflum á fasteignamarkaði – þar sem ákvarðanir sveitarfélaganna hafa áhrif á verðmyndunina. Þannig hefur verið bent á að með því að takmarka lóðaframboð og halda fasteignaverði háu geti sveitarfélögin tryggt sér meiri tekjur af fasteignasköttum.

Freistnivandi sveitarstjórnarmanna er líka augljós í núverandi kerfi. Það er svo auðvelt að gera ekkert og þiggja skattahækkunina, sem glórulausar hækkanir á fasteignamati skila sjálfkrafa í sveitarsjóðinn.

Árlegar breytingar á álagningarprósentunni eru ekki framtíðarlausn. Æ fleirum verður ljóst að gera þarf varanlegar breytingar á kerfi fasteignaskatta og -gjalda, sem verður ekki gert án atbeina löggjafans. FA hefur hvatt sveitarfélögin til að taka upp uppbyggilegt samtal við ríkisvaldið um breytt kerfi skattlagningar fasteigna, með minni sveiflur og meiri fyrirsjáanleika að markmiði.

Þar hefur félagið meðal annars vísað til skýrslu starfshóps sem skipaður var fulltrúum FA, Sambands íslenzkra sveitarfélaga, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Húseigendafélagsins og Landssambands eldri borgara.  Skýrslan kom út snemmsumars 2023. Hópurinn benti á marga ágalla á núverandi kerfi og setti fram ýmsar ábendingar.

Þar á meðal er að svokallaður B-skattur (á húsnæði hins opinbera) og C-skattur (á annað atvinnuhúsnæði) verði sameinaðir, meðal annars til þess að draga úr samkeppnishindrunum sem leitt geta af ólíkri skattlagningu og matsaðferðum á húsnæði einkafyrirtækja og stofnana hins opinbera. Í dag leggjast mismunandi skattprósentur á þessar eignir og þær eru þar að auki metnar með ólíkum aðferðum. Sumar byggingar, t.d. safnahús, eru undanþegnar fasteignaskatti, en þar er samt oft rekin samkeppnisstarfsemi, t.d. verzlanir eða kaffihús, sem þýðir að samkeppnisstaða sambærilegrar starfsemi í almennu atvinnuhúsnæði er skekkt. Að mati hópsins ættu allar fasteignar að vera metnar og bera fasteignaskatta.

Önnur ábending hópsins, sem ástæða er til að nefna, snýr að því að reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga refsa iðulega þeim sveitarfélögum sem „fullnýta ekki tekjustofna“ og draga beinlínis úr hvata til að lækka álagningarhlutfall.

Síðast en ekki sízt setti hópurinn fram ábendingar um meðalhófsþak á prósentubreytingu fasteignaskatta milli ára, þannig að hækkun eða lækkun fasteignaskatts væri ekki meiri en sem næmi tiltekinni prósentu (þar mætti hugsa sér t.d. verðbólgumarkmið Seðlabankans).

Meðalhófsþak, sem líka hefur verið kallað skattabremsa, myndi gilda hvort sem er til hækkunar eða lækkunar. Þannig væru fasteignaeigendur varðir fyrir óhóflegum hækkunum fasteignamats, en sveitarfélögin hefðu líka vörn gagnvart verðfalli og lækkun matsins. Þannig ætti breyting af þessu tagi að vera sameiginlegt hagsmunamál fasteignaeigenda og sveitarfélaga. Með þessu væri jafnframt komið í veg fyrir hvata sveitarfélaganna til að stuðla að óeðlilegum hækkunum fasteignaverðs, sem gæti með tímanum haft heilbrigð áhrif á fasteignamarkaðinn.

Það er löngu tímabært að hrinda breytingum af þessu tagi í framkvæmd.

Nýjar fréttir

2. júlí 2025

Innskráning