Bæði ESB og Ísland virði EES-samninginn

06.08.2025

Stjórn Íslensk-evrópska verslunarráðsins hefur samþykkt eftirfarandi ályktun:

„Stjórn Íslensk-evrópska verslunarráðsins lýsir yfir miklum áhyggjum af áformum Evrópusambandsins um að leggja verndartolla á járnblendi frá Íslandi og Noregi. ÍEV tekur undir það mat íslenskra stjórnvalda að slík aðgerð væri alvarlegt brot á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Stjórnin telur engar forsendur fyrir beitingu 112. greinar EES-samningsins, sem heimilar tímabundnar öryggisráðstafanir ef upp koma alvarlegir erfiðleikar í tilteknum atvinnugreinum. Álagning verndartolla myndi grafa undan því kjarnaatriði EES-samningsins sem er frjálst flæði vöru á efnahagssvæðinu. Stjórn ÍEV beinir því til framkvæmdastjórnar ESB að endurskoða afstöðu sína.

Stjórnin fagnar eindreginni viðleitni íslenskra stjórnvalda til að fá áformum ESB hnekkt. ÍEV minnir hins vegar á að það veikir stöðu Íslands til að krefjast þess að Evrópusambandið virði EES-samninginn ef Ísland verður sjálft uppvíst að brotum á honum. Íslensk stjórnvöld hafa til að mynda í reynd lagt verndartolla á vörur, sem samkvæmt EES-samningnum skulu vera tollfrjálsar, með því að tollflokka þær ranglega og þvert á alþjóðlegar reglur. Eftirlitsstofnun EFTA hefur komist að þeirri niðurstöðu að hin ranga tollflokkun sé brot á EES-samningnum, en við þeirri afstöðu ESA hafa íslensk stjórnvöld enn ekki brugðist. Mikilvægt er að þessum samningsbrotum Íslands verði hætt hið fyrsta.

Víðtæk samstaða virðist vera meðal hagsmunasamtaka í atvinnulífinu um að andmæla fyrirhuguðum verndartollum ESB og þeim brotum á EES-samningnum, sem í þeim myndu felast. Stjórn ÍEV kallar eftir jafnríkri samstöðu um að hvetja íslensk stjórnvöld til að hætta samningsbrotum sínum á sviði tollamála. Með því að vera ábyrgur samningsaðili, sem virðir skyldur sínar, verður íslenska ríkið í betri stöðu til að gera sambærilega kröfu til gagnaðila sinna.“

Íslensk-evrópska verslunarráðið er rekið af Félagi atvinnurekenda. Sérstakt hlutverk ráðsins, samkvæmt samþykktum þess, er að beita sér fyrir því að rekstur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gangi sem best og að allir aðilar samningsins standi við skuldbindingar sínar samkvæmt honum.

Ályktun þessi er send fjölmiðlum og á eftirfarandi aðila:

Clara Ganslandt, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra
Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra
Utanríkismálanefnd Alþingis

Nýjar fréttir

11. júlí 2025

Innskráning