„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 24. september 2025
Atvinnurekendur á almenna vinnumarkaðnum hafa fagnað áformum fjármálaráðherrans um að afnema flókið ferli áminninga, sem þarf að veita opinberum starfsmanni áður en hægt er að segja honum upp, t.d. vegna slælegrar frammistöðu eða brota í starfi. Miðað við símtöl og tölvupósta, sem höfundur þessa pistils hefur fengið, er fögnuðurinn þó enn meiri á skrifstofum stjórnenda hjá hinu opinbera, sem sjá fram á að geta rekið stofnanir sínar með skilvirkari og hagkvæmari hætti, í þágu hagsmuna almennings.
Eigi að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um hagkvæmni og sparnað í ríkisrekstrinum er lykilatriði að afnema áminningarskylduna og færa starfsmannastjórnun hjá ríkinu nær því sem gerist á almenna vinnumarkaðnum. Kannanir á meðal forstöðumanna ríkisstofnana hafa áratugum saman sýnt að þeir telja áminningarskylduna standa í vegi fyrir skilvirkni, hagræðingu og bættri þjónustu. Neikvætt viðhorf sé til áminninga og í rauninni ómögulegt að segja upp fólki nema vegna stórfelldra brota í starfi eða þá í skjóli skipulagsbreytinga.
Ýmis dómsmál hafa verið í fréttum, þar sem opinberum starfsmönnum, sem voru augljóslega ekki að standa sig í starfi eða brutu alvarlega af sér, voru engu að síður dæmdar bætur úr vasa skattgreiðenda vegna þess að ekki var farið eftir hinu flókna áminningarferli upp á punkt og prik. Slík mál misbjóða réttlætiskennd almennings – og þess stóra meirihluta opinberra starfsmanna sem standa sig í starfi – og hafa þær afleiðingar að stjórnendur hika við að beita ferlinu og leyfa ómögulegu fólki frekar að vera.
Afnám áminningarskyldunnar er ekki bara hagkvæmnis- og réttlætismál. Það varðar líka samkeppni á vinnumarkaðnum. Einkafyrirtæki eiga æ erfiðara með að keppa við stjórnsýsluna um fólk, enda eru launin þar hærri og samningsbundin réttindi eins og vinnutími, veikindaréttur og orlof hagstæðari. Af hverju í ósköpunum ættu sérréttindi eins og uppsagnarvernd að bætast þar ofan á?