Hlustar stjórn Póstsins á fjármálaráðherrann?

25.09.2025

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Morgunblaðinu 25. september 2025

Morgunblaðið hefur undanfarna daga fjallað um málefni Íslandspósts, samkeppnishamlandi viðskiptahætti ríkisfyrirtækisins og hvernig eftirlitsstofnunin, sem á að hafa eftirlit með samkeppni á Póstmarkaðnum, Byggðastofnun, sinnir ekki hlutverki sínu.

Í blaðinu í gær var haft eftir Daða Má Kristóferssyni fjármálaráðherra, sem heldur á hlutabréfi ríkisins í Íslandspósti, að ný stjórn Póstsins, sem var kjörin á aðalfundi 24 marz sl., hefði fengið „mjög skýr skilaboð um að það þarf að gæta vandlega að því að Pósturinn skerði ekki samkeppnisstöðu á þeim mörkuðum sem hann er inni á.“ Það er óneitanlega tilbreyting að í fjármálaráðuneytinu sé ráðherra sem tekur málstað einkarekinna póstfyrirtækja, sem eru í samkeppni við ríkisrisann.

Enn sem komið er, er hins vegar ekkert sem bendir til að nýir stjórnarmenn Póstsins hafi hlustað á þessi skilaboð ráðherrans eða tekið þau til sín. Það er reyndar svolítið erfitt að meta ákvarðanir stjórnarinnar, af því að fundargerðir stjórnar Íslandspósts hafa ekki verið birtar á vef fyrirtækisins frá því í nóvember, en við getum alltént skoðað hvað stjórnin hefur ekki gert:

Ólögmætir og samkeppnishamlandi skilmálar í gildi
31. marz, viku eftir að stjórnin var kjörin, felldi úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála úr gildi ákvörðun Byggðastofnunar um að samþykkja nýja skilmála Íslandspósts um afslátt fyrir magnpóst. Skilmálunum var beinlínis ætlað að hafa viðskipti af keppinautum Póstsins í bréfadreifingu. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að alvarlegir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð Byggðastofnunar og lagði fyrir hana að taka málið til meðferðar á ný. Ekki hefur orðið vart við að Byggðastofnun hafi aðhafzt neitt í málinu síðan í marzlok, sem er rannsóknarefni út af fyrir sig, og hinir ólögmætu skilmálar eru enn í gildi. Ef stjórn Póstsins hlustaði á fjármálaráðherrann, myndi hún að sjálfsögðu fella hina ólögmætu og samkeppnishamlandi skilmála úr gildi.

Gjaldskráin ekki í samræmi við póstlögin
Síðasta breyting á gjaldskrá Póstsins átti sér stað 1. apríl, stuttu eftir að nýja stjórnin tók við. Eins og farið var yfir í fréttaskýringu hér í blaðinu í fyrradag, var sú gjaldskrá ólögmæt; ákveðið var að hækka verð í samræmi við þróun verðlags í stað þess að fara eftir ákvæðum laga um að verð fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði. Eins og sagði í blaðinu; jafnvel þótt verðlagshækkun hefði endurspeglað kostnaðarhækkun Íslandspósts þá er sú hækkun reiknuð ofan á verð sem um árabil hefur ekki dugað fyrir kostnaði. Áralöng undirverðlagning Póstsins, sem hann fær bætta úr vösum skattgreiðenda með ákvörðunum Byggðastofnunar, grefur að sjálfsögðu undan samkeppni á póstmarkaðnum. Ef stjórn Póstsins hlustaði á fjármálaráðherrann, myndi hún endurskoða þessa ólögmætu gjaldskrá og færi að ákvæðum laga um að verð verði að byggjast á raunkostnaði og hæfilegum hagnaði.

Ekkert gegnsæi, ekkert traust
Í fréttaskýringu Morgunblaðsins var fjallað um skort á gegnsæi við ákvarðanir Byggðastofnunar um greiðslur til Póstsins vegna alþjónustu. Í póstlögunum segir að slíkar bætur skuli vera „hlutlægar, gagnsæjar, án mismununar og hlutfallsbundnar“ til þess að þær valdi „minnstu mögulegu röskun á samkeppni og eftirspurn.“ Yfir kostnaðarlíkani Íslandspósts, sem alþjónustugreiðslurnar eru byggðar á, hvílir hins vegar mikil leynd og í ákvörðunum Byggðastofnunar er ekkert gegnsæi. Fjölmiðlar, almenningur, stjórnvöld (sem borga reikninginn) og síðast en ekki sízt keppinautar Póstsins eiga engan kost á að sannreyna grundvöll þeirra milljarða greiðslna, sem fyrirtækið hefur undanfarin ár fengið úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Þetta er ein ástæðan fyrir því að á póstmarkaðnum ríkir almenn tortryggni í garð Póstsins og traustið á eftirlitsstofnuninni er núll. Ef stjórn Íslandspósts hlustaði á fjármálaráðherrann myndi hún beita sér fyrir því að gegnsæi ríkti í þessum efnum, þannig að endurheimta mætti einhvern trúverðugleika og traust.

Ríkisfyrirtæki verða að fara að lögum
Fjármálaráðherrann segir í Morgunblaðinu í gær að hlutverk Íslandspósts sem lykilinnviða sé að gufa upp. Það er rétt hjá honum og vandséð að ríkið þurfi yfirleitt að halda úti rekstri sem einkaaðilar sinna með prýði á flestum sviðum. Stjórn Íslandspósts mun eflaust hafa nóg að gera að takast á við þá stöðu og mun mögulega þurfa að gera grundvallarbreytingar á rekstrinum – en þangað til getur hún ekki leyft sér neitt annað en að fara að lögum, sem er meðal annars ætlað að vernda hagsmuni keppinauta fyrirtækisins.

Nýjar fréttir

24. september 2025

Innskráning