Samtök íslenskra eimingarhúsa fagna lögvernd íslenska ginsins

08.01.2026

„Íslenskt gin“ hefur í rúmlega ár notið verndar sem afurðarheiti samkvæmt ákvörðun Matvælastofnunar. MAST samþykkti umsókn Samtaka íslenskra eimingarhúsa, aðildarfélags Félags atvinnurekenda, um vernd afurðarheitisins, eins og fram kom í auglýsingu stofnunarinnar 5. nóvember 2024. Mikil gróska og metnaður er í framleiðslu gins á Íslandi. Notkun íslensks vatns og íslenskra jurta skapar íslenska gininu sérstöðu og njóta vörur íslenskra framleiðenda vaxandi vinsælda á alþjóðlegum vettvangi.

Vernd afurðarheita með tilvísan til landsvæðis eða uppruna þjónar mikilvægum viðskiptalegum tilgangi fyrir íslenska framleiðendur gæðavöru og hafa t.d. íslenskt lambakjöt og íslenska lopapeysan fengið sambærilega vernd. Vernd afurðarheita skýrir leikreglur á markaði, eykur verðmæti viðkomandi vöru, eflir útflutningsmöguleika og dregur úr blekkingum. Í tilviki íslenska ginsins kemur hún t.d. í veg fyrir að framleiðendur, sem ekki starfa á Íslandi, misnoti þekkt heiti til að hagnast á orðspori sem þeir hafa ekki tekið þátt í að skapa.

Eins og fram kemur í afurðarlýsingunni, sem fylgir auglýsingu MAST, verður vara að uppfylla nokkur skilyrði til að teljast íslenskt gin. Hún þarf að vera eimuð á Íslandi, með lágmarksinnihaldi af íslenskum jurtum (ein jurt af hverjum fjórum sem notaðar eru), blönduð með íslensku vatni eingöngu og átöppuð og pökkuð á Íslandi. Ýmsir innlendir framleiðendur vanda vel til verka og bjóða viðskiptavinum upp á hágæða íslenskt gin sem fellur undir umrædda skilgreiningu. Þessir innlendu framleiðendur hafa átt í ósanngjarni samkeppni við aðila sem kenna sig við Ísland eða nota íslensk auðkenni en uppfylla ekki umrædd skilyrði.

Að mati FA og SÍE er nauðsynlegt að skerpa á ýmsum atriðum í stjórnsýslunni til þess að vernd afurðarheitis íslenska ginsins skili því sem henni er ætlað. Í lögum um vernd afurðarheita er kveðið á um að MAST og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafi eftirlit með notkun skráðra afurðarheita, en í raun fer ekkert eftirlit fram og vísar þar hver stofnunin á aðra. Samtökin vonast til að úr þessu verði leyst hið fyrsta og hafa sent atvinnuvegaráðuneytinu erindi þess efnis.

Neytendavernd er mikilvæg þeim ginframleiðendum sem starfa innan SÍE. Að mati samtakanna skortir á upplýsingagjöf til neytenda, t.d. af hálfu stærstu útsölustaða áfengis, Vínbúðanna og Heinemann á Keflavíkurflugvelli, um hvaða gintegundir falli raunverulega undir vernd afurðarheitisins. Að mati FA og SÍE er nauðsynlegt að á vettvangi atvinnuvegaráðuneytisins fari fram stefnumótun um það hvernig unnt sé að tryggja að vernd afurðarheita þjóni tilgangi sínum og að lögunum um vernd sé framfylgt.

Þá benda samtökin á að neytendur geta tilkynnt til Neytendastofu, hafi þeir grun um að gin, sem ekki uppfyllir skilyrðin og er mögulega eingöngu blandað með íslensku vatni, sé selt undir þeim formerkjum að vera „íslenskt gin“. Neytendastofa hefur það hlutverk að kanna hvort slíkar fullyrðingar eigi við rök að styðjast.

Nýjar fréttir

19. desember 2025

Innskráning