Að fara showleiðina

18.08.2023

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 18. ágúst 2023.

Gagnrýni forstjóra Eimskips á stjórnvöld vegna EES-reglna um að skipafélög verði að kaupa losunarkvóta fyrir gróðurhúsalofttegundir, hefur vakið athygli. Talsmenn skipafélaganna boða hækkanir á gjaldskrám vegna kostnaðar við kaup á losunarkvóta. Þó er vandséð að íslenzk stjórnvöld hefðu getað haldið öðruvísi á málum; flutningageirinn eins og aðrar atvinnugreinar verður að leggja sitt af mörkum til að Ísland nái loftslagsmarkmiðum sínum.

Velta má fyrir sér hvort forstjórinn sé ekki fremur að setja upp svolítið show til þess að beina athyglinni frá raunverulegum ástæðum hás flutningskostnaðar og sífelldra verðhækkana stóru skipafélaganna. Sjóflutningsgjaldskrá og þjónustugjöld Eimskips á Íslandi hafa t.d. hækkað um 15,1% á árinu.

Íslenzk inn- og útflutningsfyrirtæki, og þar með líka neytendur, búa við einhverja dýrustu skipaflutninga í heimi. Á meðal skýringanna á því eru óskilvirkt og óhagkvæmt flutningakerfi og lítil samkeppni. Félagsmenn í Félagi atvinnurekenda hafa undanfarið gagnrýnt ógegnsæja verðskrá skipafélaganna og þá staðreynd að í stærstu inn- og útflutningshöfn landsins, Sundahöfn, eiga skipafélögin sjálf löndunarbúnaðinn, sem hindrar aðgang keppinauta.

Alþjóðlegir ráðgjafar, sem unnu skýrslu fyrir Faxaflóahafnir í fyrra, mæltu með að sameina losunar- og lestunarbúnað í Sundahöfn, sem yrði þá í eigu óháðs rekstraraðila. Þetta myndi leiða til mikillar hagræðingar og auðvelda aðkomu nýrra skipafélaga. Þessi leið hefur annan kost, sem er að með hagkvæmari lausnum í Sundahöfn má stytta viðlegutíma flutningaskipa og þannig gefst kostur á að hægja á skipum á milli hafna og spara olíukostnað og útblástur.

Full ástæða er til þess að skipafélögin, í samstarfi við Faxaflóahafnir, skipulagsyfirvöld í Reykjavík og mögulega Samkeppniseftirlitið, taki upp umræður um hagræðingu og opnara samkeppnisumhverfi í stærstu vöruflutningahöfn landsins, jafnt í þágu lægri flutningskostnaðar og umhverfisvænni flutninga. Það væri raunverulegt og mikilvægt framlag en ekki show.

Nýjar fréttir

Innskráning