Að gefnu tilefni: Aukið verslunarfrelsi er farsælasta efnahagsaðgerðin

03.07.2014

Stjórn Félags atvinnurekenda fagnar yfirlýsingum fjármálaráðherra þess efnis að hann vinni nú að afnámi vörugjalda og einföldun neysluskatta. Markmiðið sé að hverfa frá neyslustýringu. Vörugjaldakerfið er tímaskekkja og því mikilvægt að breytingar í þessa veru nái hratt fram að ganga.

 

Það er einnig ástæða til að fagna því að iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem fer m.a. með samkeppnis- og neytendamál, vilji greiða úr þeim úrlausnarefnum sem fyrir hendi eru varðandi ýmsar viðskiptahindranir á Íslandi, t.d. varðandi tolla og merkingar á innfluttum vörum frá Bandaríkjunum. Það er hins vegar grundvallaratriði að slíkar breytingar séu almenns eðlis en snúi ekki að fyrirgreiðslu gagnvart einum aðila. Aðeins þannig er um jafnræði á markaði að ræða sem er forsenda heilbrigðrar samkeppni.
Félag atvinnurekenda hefur barist fyrir umbótum á þessi sviði í áratugi, nú síðast undir merkjum Falda aflsins. Það er staðreynd að dæmin um fáránleika núverandi kerfis eru mýmörg og ekkert annað en köld kveðja til neytenda og þeirra sem vilja öflugt samkeppnisumhverfi í landinu.

 

Aukið verslunarfrelsi er farsælasta efnahagsaðgerðin. Það gilda ekki önnur lögmál á Íslandi en annars staðar. Það þarf að einfalda viðskiptaumhverfi og gjörbylta gjalda- og tollaumhverfi þannig að engir tollar og engin vörugjöld verði að meginreglu. Það er fagnaðarefni að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands taki jafn sterkt til orða um þessi mál eins og raun ber vitni. Nú þurfa verkin að tala.

 

Frekari upplýsingar veitir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda í síma
618-2898.

 

Sjá yfirlýsingu FA

Nýjar fréttir

Innskráning