„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 5. mars 2025
Trump Bandaríkjaforseti gerði í gær alvöru úr hótunum sínum um háa tolla á útflutningsvörur stærstu viðskiptalanda Bandaríkjanna, Kanada, Mexíkó og Kína. Markaðir í Bandaríkjunum lækkuðu og greiningaraðilar spá því að afleiðingarnar verði verðbólga í Bandaríkjunum; að meðalfjölskyldubíllinn hækki t.d. í verði um tæplega 350 þúsund ÍSK. Trump hefur sömuleiðis hótað Evrópusambandsríkjunum háum tollum. Enginn veit hvort þeir munu ná til EFTA-ríkjanna, þar á meðal Íslands.
Alþjóðlegt tollastríð er illu heilli í uppsiglingu. Kanada og Mexíkó munu hækka tolla á bandarískar vörur á móti og sá gífurlegi ávinningur sem hagkerfi allra þriggja ríkja hafa haft af fríverzlun og efnahagslegum samruna á undanförnum áratugum er í uppnámi. Kína og ESB búa sig sömuleiðis undir að svara. Niðurstaðan verður sú að allir tapa, enda er það hin sögulega reynsla af tollum og viðskiptastríðum. En forseti Bandaríkjanna var ekki vakandi í sögutímum eins og orð hans og gjörðir sýna.
Hvernig á Ísland að bregðast við þessari þróun? Þegar heyrast raddir um að í þessu andrúmslofti sé bara bjánalegt að halda áfram að tala um lækkun þeirra tolla, sem enn standa á Íslandi og verja fyrst og fremst innlenda búvöruframleiðslu. Tollar verði hvergi lækkaðir næstu árin. Í tollastríði við Bandaríkin má Ísland sín einskis. Landið, sem á meira en flest önnur undir frjálsum alþjóðlegum viðskiptum, á hins vegar að halda áfram að beita sér fyrir útvíkkun á fríverzlun, til dæmis með því að fylgja eftir nýlegum fyrirheitum um áframhaldandi lækkun tolla á sjávarafurðum og búvörum í viðskiptum við Evrópusambandið, okkar stærsta markað. EFTA-ríkin eru nýbúin að gera samninga um fríverzlun við Indland og Taíland, mikilvæga markaði í Asíu, sem þarf að fylgja eftir og hrinda í framkvæmd. Bezta leiðin til að trompa Trump er að halda áfram að sýna fram á gildi fríverzlunar og heilbrigðrar samkeppni.