Aðalfundur ÍEV: Stjórnvöld standi vörð um fríverslun og samræmi tollflokkun milli Íslands og ESB

21.06.2022

Aðalfundur Íslensk-evrópska verslunarráðsins (ÍEV), sem Félag atvinnurekenda rekur, var haldinn í dag. Fundurinn samþykkti m.a. ályktun þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til að standa gegn kröfum hagsmunaaðila í landbúnaði um að vinda ofan af fríverslun með búvörur í þeim viðræðum sem framundan eru við Evrópusambandið. Þá skorar ráðið á stjórnvöld að fara í vinnu við að samræma tollskrá og tollflokkun á Íslandi og í ESB, en nýlega hafa komið upp mál þar sem mismunandi tollflokkun skapar hindranir í viðskiptum. 

Á fundinum var Páll Rúnar M. Kristjánsson hæstaréttarlögmaður endurkjörinn formaður ráðsins. Arnar Atlason, framkvæmdastjóri Tor fiskvinnslu, var jafnframt endurkjörinn meðstjórnandi. María Bragadóttir, fjármálastjóri Ósa og dótturfélaganna Icepharma og Parlogis, kemur ný inn í stjórn. Auk þeirra sitja í stjórn, kjörnir á aðalfundi í fyrra, þeir Jóhannes Þór Ævarsson framkvæmdastjóri ferskvörusviðs hjá Innnesi og Sigurður Gunnar Markússon, forstöðumaður viðskiptaþróunar og umbótaverkefna hjá Krónunni.

Ályktun aðalfundarins í heild er svohljóðandi:

„Aðalfundur Íslensk-evrópska verslunarráðsins (ÍEV), haldinn 21. júní 2022, skorar á stjórnvöld að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur í fríverslun á milli Íslands og Evrópusambandsins og tryggja enn víðtækari tollfrjáls viðskipti með bæði búvörur og sjávarafurðir í þeim viðræðum við ESB, sem utanríkisráðherra hefur boðað að standi fyrir dyrum.

Mikið er til vinnandi að bæta aðgang íslenskra sjávarafurða að markaði Evrópusambandsins, en vegna hækkandi hlutfalls laxaafurða í útflutningi hefur hlutfall íslenskra sjávarafurða sem ekki bera tolla í ESB lækkað töluvert frá því að EES-samningurinn var gerður.

Þá telur ÍEV brýnt að standa gegn kröfum hagsmunaaðila í landbúnaði um að dregið verði úr fríverslun með búvörur samkvæmt tvíhliða samningi Íslands og Evrópusambandsins. Sá samningur hefur stuðlað að auknu samkeppnisaðhaldi við íslenskan landbúnað, lægra verði og stórauknu vöruúrvali fyrir íslenska neytendur, um leið og hann skapar íslenskum landbúnaði tækifæri til útflutnings. Íslensk matvöruverslun og íslenskir neytendur geta ekki átt að líða fyrir að landbúnaðurinn hafi ekki gripið þau tækifæri að fullu. ÍEV minnir á að 19. grein EES-samningsins skuldbindur bæði Ísland og ESB til að auka smám saman frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarafurðir.

Aðalfundur ÍEV hvetur íslensk stjórnvöld til að fara í vinnu við að samræma tollskrá og tollflokkun á Íslandi og í ESB. Upp hafa komið mál þar sem íslensk tollayfirvöld tollflokka vörur, sem fluttar eru inn frá Evrópusambandinu, með öðrum hætti en þær eru tollflokkaðar innan sambandsins. Í nýlegum úrskurði tollstjóra í einu slíku máli segir að „tollskrá Evrópusambandsins og skýringabækur hafa í raun ekkert gildi hvað tollflokkun þessarar vöru varðar eða tollflokkun á Íslandi yfirleitt.“ Þetta býr til augljóst óhagræði, skort á fyrirsjáanleika og hindranir í viðskiptum á milli Íslands og Evrópusambandsins. Að tollflokka vöru með öðrum hætti en gert er á stærsta markaðssvæði íslenskra fyrirtækja getur auk þess búið til skálkaskjól fyrir íslensk stjórnvöld til að fara ekki að skuldbindingum sínum um tollfrjáls viðskipti samkvæmt EES-samningnum eða tvíhliða samningum við ESB.

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning