Aðgerðir, sem Reykjavíkurborg tilkynnti í gær til að bregðast við áhrifum heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar, valda vonbrigðum að mati Félags atvinnurekenda. „Tafarlausar aðgerðir til aðstoðar fyrirtækjum í borginni eru því miður rýrar í roðinu og mikið um almennt orðaðar viljayfirlýsingar,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA.
Borgin hefur ekki orðið við áskorun FA um tímabundna niðurfellingu fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði, en hyggst veita frest á greiðslu allt að þriggja gjalddaga fasteignaskatta atvinnuhúsnæðis vegna ársins 2020. Þá er boðað að lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði verði flýtt og skatthlutfallið fært úr 1,65% niður í 1,60% á næsta ári. Það verður engu að síður hærra skatthlutfall en öll nágrannasveitarfélög borgarinnar innheimta á árinu 2020, eins og sjá má á myndinni hér að neðan. „Það veldur miklum vonbrigðum að Reykjavíkurborg, sem innheimtir 52% allra fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði á landinu, treysti sér ekki til að gera betur en þetta,“ segir Ólafur.
Aðrar aðgerðir eru eins og áður sagði flestar í formi almennt orðaðra stefnuyfirlýsinga um að stefnt skuli að frestun og/eða lækkun gjalda, sveigjanleika í innheimtu og gjaldfrestum, flýtingu framkvæmda og fjárfestinga o.s.frv.
„Félag atvinnurekenda mun fylgjast með því hvernig aðgerðir borgarinnar þróast og veita borgaryfirvöldum áfram aðhald í þessum efnum,“ segir Ólafur Stephensen.