Núverandi uppboðsfyrirkomulag á úthlutun tollkvóta fyrir búvörur gengur gegn hagsmunum neytenda, brýtur gegn jafnræði innflytjenda og eykur mjög á óvissu og ógegnsæi á markaði. Aðrar aðferðir til að úthluta tollkvótanum væru meira í anda Marrakesh-samkomulagsins sem Alþjóðaviðskiptastofnunin WTO starfar samkvæmt. Þetta er á meðal niðurstaðna skýrslu sem tveir hagfræðingar hafa unnið fyrir Félag atvinnurekenda og var kynnt alþingismönnum á fundi utanríkismálanefndar Alþingis fyrr í dag.
Á fundi utanríkismálanefndar var fjallað um tollasamning Íslands og Evrópusambandsins sem undirritaður var í fyrrahaust, en hann bíður staðfestingar þingsins. Í umsögn Félags atvinnurekenda um samninginn er bent á að uppboð á tollkvótum fyrir búvörum geri að verkum að útboðsgjaldið, sem innflutningsfyrirtæki þurfa að greiða fyrir kvótana, éti upp ávinning neytenda af tollfrelsinu að verulegu eða jafnvel öllu leyti. Jafnframt þýði það að samkeppni við innlendan landbúnað sé minni en að var stefnt.
Útboðsfyrirkomulagið stenst hvorki samninginn við ESB né íslensk lög
Að mati FA er mjög hæpið að útboðsfyrirkomulagið standist ákvæði í samningi Íslands og ESB, þar sem segir að samningsaðilar skuli „tryggja að ávinningnum, sem þeir veita hvor öðrum, verði ekki stefnt í hættu með öðrum takmarkandi innflutningsráðstöfunum.“
FA bendir jafnframt á að Hæstiréttur hefur nýverið dæmt útboðsgjaldið ólögmætt og ríkið hafi þurft að endurgreiða innflytjendum háar fjárhæðir af þeim sökum. Að mati FA er fyrirkomulag úthlutunar tollkvóta áfram ólögmætt og viðbúið að innflutningsfyrirtæki haldi áfram að sækja rétt sinn gagnvart dómstólum.
„Það eru gagnkvæmir hagsmunir innflytjenda búvöru, neytenda og ríkisins að fundið verði fyrirkomulag sem tryggir sanngjarna og hagkvæma úthlutun tollkvótanna,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Við báðum Þórólf Matthíasson hagfræðiprófessor og Örn Ágústsson hagfræðing að setja saman þessa skýrslu sem innlegg í umræður um hvernig megi finna slíka lausn. Við höfum einnig sent atvinnuveganefnd Alþingis skýrsluna og hvetjum þingið til að beita sér fyrir breytingum á ákvæðum búvörulaga um úthlutun tollkvóta.“
Algengast að úthluta tollkvóta án endurgjalds
Í skýrslu Þórólfs og Arnar kemur fram að langalgengast sé að aðildarríki WTO úthluti tollkvóta án endurgjalds. Noregur og Ísland eru helstu undantekningarnar frá þeirri reglu. Þeir telja hæpið að framkvæmd útboðanna standist jafnræðisreglu því að ólíkir innflytjendur sömu vöru standi frammi fyrir ólíku kvótaverði. Núverandi aðferð við úthlutun tollkvóta auki mjög á óvissu og ógegnsæi á markaðnum og geti dregið úr líkum á að mögulegir innflytjendur búvöru leggi fram tilboð í tollkvóta.
Í lokakafla skýrslunnar eru settar fram hugmyndir að breyttu verklagi við úthlutun tollkvóta. Í fyrsta lagi væri hægt að úthluta innflutningskvótum til innflutningsaðila á grundvelli sögulegrar reynslu. Í öðru lagi mætti úthluta hluta kvótans á grundvelli sögulegrar reynslu en beita hlutkesti við að úthluta hluta hans. Í þriðja lagi mætti notast við uppboðsfyrirkomulag í stað hlutkestis. Í fjórða lagi væri hægt að binda úthlutun innflutningskvóta við skuldbindingu um að flytja inn sömu vöru á fullum tollum í ákveðnu magni (t.d. kíló fyrir kíló).
Skýrsluhöfundar segja að með uppboðum á tollkvóta sé unnið gegn markmiðum stofnsamkomulags WTO. „Þær aðferðir sem stungið er upp á í síðustu köflum þessarar skýrslu eru að mati höfunda meir í anda Marrakesh-samkomulagsins,“ segja þeir Þórólfur og Örn.