Aðrir borga

27.01.2022

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 27. janúar 2022.

Fyrr í mánuðinum birtust í samráðsgátt stjórnvalda drög umhverfisráðuneytisins að nýrri hollustuháttareglugerð. Fjölmiðlar hafa sagt eina frétt úr plagginu; að nú þurfi börn skriflegt leyfi forráðamanna til að fara í húðflúrun eða húðgötun. Okkur hjá Félagi atvinnurekanda þótti öllu fréttnæmara að nýjar og kostnaðarsamar kvaðir eru lagðar á atvinnurekendur með ákvæðum í drögunum.

Þannig er kveðið á um að þar sem almenningur hefur aðgang að salernum, t.d. á veitingahúsum eða í verzlunarmiðstöðvum, skuli bjóða upp á einnota tíðavörur. Sömuleiðis að þar sem eru karla- og kvennaklósett, sem almenningur hefur aðgang að, skuli einnig vera salerni fyrir önnur kyn.

Þessar kvaðir geta reynzt kostnaðarsamar; annars vegar vegna innkaupa á vörum, sem eiga væntanlega að vera til ókeypis afnota fyrir gesti, og hins vegar vegna breytinga á húsnæði, sem geta orðið mjög dýrar. Fyrir slíkum íþyngjandi kvöðum verður að vera skýr lagastoð, en hún finnst ekki.

Þegar aðgerðaáætlun um málefni hinsegin fólks, sem forsætisráðuneytið birti í samráðsgáttinni nýlega, er lesin, kemur í ljós að breytingar á hollustuháttareglugerðinni eru ein af aðgerðunum. Í áætluninni er tilgreint hvað hver og einn liður hennar kostar. Liðurinn „breytingar á reglugerðum um hollustuhætti“ er sagður „rúmast innan fjárheimilda“. Ríkið ætlar með öðrum orðum ekki að taka neinn þátt í kostnaðinum sem felst í hinum nýju kröfum. Rekstraraðilar eiga að borga.

Þessi áformuðu reglugerðarákvæði eru því miður lýsandi dæmi um viðleitni embættismanna til að bæta smátt og smátt við kostnað atvinnurekenda, oft undir formerkjum fallegra markmiða. Það er reyndar líka til í dæminu að embættismennirnir skilji ekki að nýjum kvöðum fylgi kostnaður.

Mörg fyrirtæki bjóða upp á tíðavörur á salernum, mörg eru líka með kynhlutlaus klósett. Það er þeirra val – ríkið á ekki að skikka þau til að leggja í kostnaðinn sem slíku fylgir.

Nýjar fréttir

Innskráning