Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptamogganum 1. október 2025
Samkeppniseftirlitið tók aðeins í lurginn á Veðurstofu Íslands í síðasta mánuði, eftir samskipti Félags atvinnurekenda og Veðurstofunnar, sem eftirlitinu var leyft að fylgjast með.
FA fékk ábendingar um að Veðurstofan keppti við einkafyrirtæki á markaði fyrir mælingaþjónustu og tæki þátt í útboðum og verðkönnunum, með góðum árangri. Skoðun leiddi fljótt í ljós að Veðurstofan er undir ströngum kvöðum um að skilja samkeppnisrekstur sinn frá annarri starfsemi. Lög um stofnunina setja skilyrði um að samkeppnishlutinn sé fjárhagslega aðskilinn öðrum rekstri og verðlagningin taki mið af markaðsverði. Gefin skuli út sérstök gjaldskrá samkeppnisrekstrar. Í úrskurði samkeppnisyfirvalda frá 2002 var stofnunin líka skikkuð til að stofna sérstaka einingu um samkeppnisreksturinn, gera fyrir hann stofnefnahagsreikning og birta reikningshaldið opinberlega.
Við lestur ársskýrslna og vefsíðu Veðurstofunnar fundust engar vísbendingar um að farið væri að þessum kvöðum. Í erindi sem FA sendi Veðurstofunni var spurt um hlítni við lögin og ákvörðun samkeppnisyfirvalda. Þegar félagið var dregið á svari gerði það kröfu um að Veðurstofan drægi til baka tilboð í samkeppnisþjónustu og stofnunin varð við því. Þegar svarið barst, kom í ljós að aðskilda reikningshaldið var ekki til, ekki stofnefnahagsreikningurinn heldur og gjaldskráin hafði ekki verið birt.
Samkeppniseftirlitið krafðist þess bréflega að úr yrði bætt þegar í stað, meðal annars með opinberri birtingu á reikningshaldinu. „Er þetta meðal annars brýnt þegar stofnunin tekur þátt í opinberum útboðum, en það er lykilatriði í framkvæmd útboða að allir þátttakendur njóti jafnræðis og að ekki sé unnt að draga heilindi útboða í efa,“ sagði í erindi SE.
Þar var tilgangurinn með fjárhagslegum aðskilnaði líka rifjaður upp: „Markmiðið með honum er að taka af allan vafa um það að samkeppnisrekstur opinberra aðila sé greiddur niður með þeirri starfsemi opinbers aðila sem nýtur verndar. Þannig þarf ekki að liggja fyrir að hegðun hins opinbera aðila hafi skaðleg áhrif á samkeppni, heldur einungis að opinber aðili sé með hluta af rekstri sínum í samkeppni við einkaaðila.“
Aðskilnaðarstefnan
Samkeppniseftirlitið hefur samkvæmt 14. grein samkeppnislaga heimild til að mæla fyrir um aðskilnað af þessu tagi og hefur oft gert það. Engu að síður standa einkafyrirtæki og samtök þeirra í stöðugu stappi við ríkisstofnanir að halda aðskilnaði samkeppnisstarfsemi til haga. Það ætti ekki að þurfa atbeina samkeppnisyfirvalda til; stjórnvöld hafa fyrir löngu mótað þá stefnu að slíkur aðskilnaður sé skylda.
Árið 1997 var gefin út af fjármálaráðuneytinu stefna, sem er í fullu gildi, um að sé stundaður umtalsverður samkeppnisrekstur hjá stofnun, skuli hún aðgreina hann fjárhagslega frá öðrum rekstri. Ef t.d. tekjur stofnunar af samkeppnisrekstri eru hærri en 180 milljónir (framreiknuð tala) eða markaðshlutdeildin er meiri en 15% af tilgreindum markaði, skal eiga sér stað fjárhagslegur og stjórnunarlegur aðskilnaður samkeppnisrekstrar og annarrar starfsemi.
Margir ríkisforstjórar láta eins og þeir hafi aldrei heyrt um þessa stefnu. FA hefur í rúmlega fimm ár reynt að fá Háskóla Íslands til að fara að tilmælum Samkeppniseftirlitsins og ráðuneytis háskólamála um að skólinn greini rekstur Endurmenntunar HÍ (EHÍ) frá öðrum rekstri. EHÍ keppir grimmt við einkarekin fræðslufyrirtæki, bæði á neytenda- og fyrirtækjamarkaði. Síðast þegar HÍ birti upplýsingar um tekjur EHÍ, árið 2013 (!), voru þær sagðar 470 milljónir króna. Skyldan til aðskilnaðar er því ótvíræð, en viðbrögð HÍ hafa verið að birta tvær merkingarlausar setningar á vef skólans um að Endurmenntun njóti ekki opinberra framlaga.
Af hverju ætli ríkisforstjórar kvíði því svona að þurfa að birta upplýsingar um aðskilnað samkeppnisrekstrar frá öðrum rekstri? Getur verið að þeir séu að afla stofnunum sínum sértekna með því að undirbjóða rekstur einkarekinna keppinauta? Og af hverju ætli stjórnvöld, til dæmis þau sem nú sitja og segjast eindregið hlynnt frjálsri samkeppni, séu ekki duglegri að halda þeim við efnið og minna þá á stefnu hins opinbera?