Ætti innlend verslun að biðja um hærri álögur á erlendar verslanakeðjur?

07.12.2017

„Verslun hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Erlend stórfyrirtæki á borð við hið bandaríska Costco, breska Iceland, bandaríska Dunkin‘ Donuts, svissneska Nespresso, sænska H&M og þýska Bauhaus hafa opnað búðir hérlendis. Þetta eru stórkostlegar fréttir fyrir neytendur, viðskiptavini okkar. Hvernig á íslenska verslunin að bregðast við? Ættu Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu, þar sem aðildarfélög í verslun veita tugum þúsunda landsmanna atvinnu, að biðla til stjórnvalda að vernda íslensk fyrirtæki með því að leggja auknar álögur á erlenda verslun?“

Þannig spyr Magnús Óli Ólafsson, formaður FA og forstjóri Innness, í opnuviðtali í Viðskiptamogganum í dag, þegar rætt er um hvernig landbúnaður á Íslandi er varinn fyrir erlendri samkeppni með háum tollum. „Væri sanngjarnt ef erlendar matvörukeðjur yrðu að greiða 30% virðisaukaskatt en íslenskar 11% og auka skatta og gjöld til að vernda íslenska verslun? Erlendir ferðamenn tala um þeir vilji sjá íslenska verslun, hvað er gaman að versla í búðum sem eru í hverri einustu stórborg og bjóða lægra verð en hér? Ættum við að nota sömu rök og málflutning og þeir sem vilja loka landinu fyrir innflutningi á erlendum búvörum með hræðsluáróðri? Í síðustu viku þurfti einn matvörukaupmaður að loka verslun sinni og sjá á eftir margra ára starfi sínu út af erlendri samkeppni. Þannig gengur þetta fyrir sig á frjálsum markaði,“ segir Magnús.

Samkeppnin leiðir það besta af sér
Hann heldur áfram: „Það væri vitaskuld fáránlegt ef verslunin myndi leggja fram slíka bón. Ef svo færi gætu erlend fyrirtæki ekki þrifist hér á landi sem væri óheillaskref fyrir neytendur, því þeir myndu standa frammi fyrir hærra vöruverði og minna úrvali. Allir sem stunda verslun af fagmennsku vita að samkeppni leiðir ávallt það besta af sér fyrir neytendur og viðskiptin sjálf. Sömu sögu er að segja af þeim múrum sem reistir hafa verið til að vernda íslenskar búrvörur. Þeir bitna á neytendum sem greiða fyrir verndina, bæði í formi hærra vöruverðs og svo hafa innlendir matvælaframleiðendur minni hvata til vöruþróunar og nýsköpunar ef samkeppninni er haldið úti með tollum. Á sama tíma ræða stjórnmálamenn um mikilvægi þess að útrýma fátækt. Hvað er mikilvægara í því verkefni en að leggja af tolla á matvæli til að auðvelda landsmönnum innkaupin? Allir þurfa jú á mat að halda.“

Magnús Óli ræðir ýmis mál í viðtalinu, m.a. samkeppnina við Costco, tollamál, lífeyrissjóðakerfið og gjaldmiðilsmál.

Frétt mbl.is

Nýjar fréttir

Innskráning