Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 30. janúar 2026.
Í ágætri fréttaskýringu Höskuldar Daða Magnússonar í Morgunblaðinu í gær er farið yfir hvernig verð á bjór hækkar stöðugt og ýmsir veitingamenn eru farnir að grípa til þess ráðs að minnka skammtinn til að halda verðinu viðráðanlegu. Í umfjöllun blaðsins er rætt við Einar Bárðarson, framkvæmdastjóra SVEIT, samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, sem gerir hina háu áfengisskatta á Íslandi að umtalsefni og hvetur til lækkunar þeirra. Í umfjölluninni er ennfremur vakin athygli á því að hærri áfengisskattur er lagður á bjór en á léttvín, sem mörgum þykir skjóta skökku við.
Hæstu áfengisskattar á Vesturlöndum
Félag atvinnurekenda hefur um árabil barizt gegn sífelldri hækkun áfengisskatta. Þeir eru þeir langhæstu í hinum vestræna heimi. Ísland er æ meira úr takti við önnur ríki hvað varðar skattlagningu á áfengi. FA hefur ítrekað bent á skaðsemi þessa fyrir neytendur, veitingageirann, ferðaþjónustuna og auðvitað innlenda áfengisframleiðslu, sem er vaxandi grein og í sterkum tengslum við ferðaþjónustuna. Hlustunarskilyrðin eru hins vegar jafnléleg í fjármálaráðuneytinu og á Alþingi, sama hverjir fara þar með völdin.
Eitt af því sem FA hefur bent á er mismununin í skattlagningu á bjór og léttvíni. Áfengisgjald á hvern sentilíntra hreins vínanda í bjór er um 10% hærra en skattur á áfengiseiningu í léttvíni. Þetta skekkir samkeppnisstöðu innlends áfengisiðnaðar, enda er framleiðsla bjórs blómleg og vaxandi atvinnugrein, en engin léttvínsframleiðsla á Íslandi eins og flestum er kunnugt.

Engin rök finnast fyrir mismunandi skattlagningu …
Haustið 2023 sendi FA fjármála- og efnahagsráðuneytinu erindi og fór fram á rökstuðning fyrir þessari mismunun í skattlagning. Félagið spurði m.a. hvaða markmiðum væri stefnt að með löggjöfinni um skattlagningu á áfengi og hvernig þessi mismunandi skattlagning næði þeim markmiðum.
Svarbréf fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem barst í nóvember 2023, benti eindregið til þess að ráðuneytið vissi ekki sjálft hvaða rök, ef einhver, eru fyrir því að hafa áfengisgjald á bjór hærra en á léttvíni. Í bréfinu var rakið að þegar frumvarp til núverandi laga um áfengisskatta var rætt á Alþingi á sínum tíma, árið 1998, hefði komið fram að rétt þætti að skipta áfengissköttum upp í skatta á bjór, léttvín og sterkara áfengi til þess að „hægt væri að taka ákvörðun um um lækkun á hverjum flokki fyrir sig.“ Ráðuneytinu tókst hins vegar ekki að útskýra hvernig sjónarmið um neyzlustýringu, sem fram komu við framlagningu og flutning málsins á Alþingi, réttlættu að með skattlagningu væri neyzlu beint úr léttara áfengi (bjór) í sterkara (léttvín).
… en ekkert breytist
„Fjármála- og efnahagsráðuneytinu er ekki unnt, umfram það sem að framan er rakið, að tilgreina frekar þau sjónarmið og þau markmið sem stefnt var að með umræddri skiptingu áfengisgjaldsins né leggja mat á hvernig hin mismunandi skattlagning hafi náð þeim markmiðum,“ sagði í svari ráðuneytsins, sem verður að teljast heldur endasleppt.
Með öðrum orðum: Fjármálaráðuneytið sjálft hefur ekki hugmynd um af hverju hærri áfengisskattur er á bjór en léttvíni. Engu að síður hefur ráðuneytið, eða þeir sem þar halda um stjórnartauma, ekki gert nokkurn skapaðan hlut til að breyta þessu ójafnræði.