Af hverju er innflutta kjötið dýrt?

12.03.2015

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í Viðskiptablaðinu 12. mars 2015.

Innflutningur á svínakjöti hefur margfaldast síðustu misseri vegna skorts á innanlandsmarkaði.
Innflutningur á svínakjöti hefur margfaldast síðustu misseri vegna skorts á innanlandsmarkaði.

Á Búnaðarþingi í byrjun mánaðarins sakaði Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, talsmenn verzlunarinnar um að beita blekkingum þegar þeir töluðu fyrir lækkun tolla á innfluttar búvörur. Í viðtali við RÚV sagði hann að verzlunin þættist tala fyrir hag neytenda, en tölurnar sýndu annað. Þrátt fyrir stóraukinn innflutning á kjöti hefði verð hækkað.

Þar stendur nákvæmlega hnífurinn í kúnni. Félag atvinnurekenda hefur bent á að þrátt fyrir að innlend framleiðsla, til dæmis á nauta-, svína- og alifuglakjöti, anni ekki eftirspurn séu lagðir svo háir tollar á innflutning að hann veiti innlendu framleiðslunni litla samkeppni.

Í ræðu Sindra Sigurgeirssonar á Búnaðarþingi var m.a. að finna þessa rangfærslu: „Þegar íslenskar vörur eru ekki til, eru erlendu vörurnar fluttar til landsins án tolla.“ Þannig er það einmitt ekki. Í nýlegri skýrslu starfshóps landbúnaðarráðherra, þar sem bæði FA og Bændasamtökin áttu fulltrúa, stendur skýrlega að þrátt fyrir að tollar séu lækkaðir þegar skortur er á innlendri vöru, eru þeir samt sem áður umtalsverðir. Þannig nemur tollvernd um helmingi verðsins á innfluttu kjúklingakjöti, þriðjungi verðs svínakjöts og fjórðungi af verði nautakjöts. Það er því ekki að furða að verðið lækki ekki þótt meira sé flutt inn. Stjórnvöld halda því háu með því að leggja áfram tolla á matinn, þrátt fyrir skort.

Þetta er ekki það eina í málflutningi talsmanna landbúnaðarins um tollamál sem heldur ekki vatni. Á Búnaðarþingi héldu þeir því fram í öðru orðinu að verzlunin myndi stinga tollalækkun í eigin vasa og verðið til neytenda ekkert lækka. Í hinu orðinu var staðhæft að verðið myndi lækka svo mikið að heilu búgreinarnar legðust af! Í þessari þversögn er því miður ekki heil brú.

Það er líka fráleitt að stilla því þannig upp að talsmenn verzlunarinnar vilji drepa innlendan landbúnað með málflutningi um að atvinnugreinin búi við sama viðskiptafrelsi og aðrar. Verzlunin og landbúnaðurinn eru bandamenn, sem geta ekki hvor án hins verið. Framleiðendur búvöru eiga hins vegar ekkert frekar en aðrir innlendir framleiðendur að vera verndaðir fyrir samkeppni með tollmúrum. Í krafti vinsælda innlendrar búvöru hjá neytendum munu þeir standa vel að vígi þrátt fyrir að þurfa að mæta aukinni samkeppni.

Nýjar fréttir

Innskráning