Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, velti á fundi Alþýðusambandsins og Neytendasamtakanna um verðlag á mat upp þeirri spurningu af hverju verkalýðshreyfingin ræddi ekki verðlagsmál í viðræðum sínum við stjórnvöld í tengslum við kjarasamninga. Ólafur nefndi þar sérstaklega lækkun innflutningstolla, afnám undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum og gjaldmiðilsmál.
Ólafur var þátttakandi í pallborðsumræðum á fundinum. Í máli hans kom fram að farið hefði verið á fundinum yfir ýmsar skýringar á háu matarverði á Íslandi. Hins vegar hefði kannski ekki verið greint nægilega vel á milli skýringanna sem ekkert væri hægt að gera í, sem væru til dæmis fjarlægð Íslands frá öðrum mörkuðum, smæð landsins og óhentugar aðstæður til landbúnaðar, og skýringanna sem hægt væri að hafa áhrif á. Á meðal þeirra síðarnefndu væru háir vextir, óstöðugur gjaldmiðill sem gerði áætlanagerð erfiða og dýrt væri að verjast sveiflum hans, ónóg samkeppni í flutningum, miklar þjónustukröfur neytenda, innflutningshöft í landbúnaði og undanþágur frá samkeppnislögum, sem mjólkuriðnaðurinn nýtur.
„Ég segi – af því að nú eru í gangi einhvers konar þríhliða viðræður um kaup og kjör, ekki bara það sem kemur í buddu launþega heldur líka það sem fer úr henni – af hverju er ekki miklu skýrari krafa verkalýðshreyfingarinnar á borðinu? Forsvarsmenn Alþýðusambandsins sem hér eru geta kannski svarað því. Af hverju er ekki miklu skýrari krafa til stjórnvalda um að taka á innflutningshöftum og tollum, að taka á samkeppnisumhverfinu og fara aftur í einhverja alvöru umræðu um gjaldmiðilinn? Af því að þetta þrennt skiptir gríðarlega miklu máli varðandi matarverð og allt annað verðlag á Íslandi,“ sagði Ólafur.
Hægt er að horfa á upptöku af fundinum í spilaranum hér að neðan. Pallborðsumræðurnar hefjast á 1.32.40.