Áfengið miklu dýrara hjá Heinemann á Íslandi en í nágrannalöndum

15.10.2025

Mörg dæmi eru um að áfengir drykkir séu miklu dýrari í fríhafnarverslun Heinemann á Keflavíkurflugvelli en í verslunum sama fyrirtækis á flugvöllum í öðrum Evrópuríkjum. Á myndinni hér að neðan, þar sem borið er saman verð á nokkrum vinsælum áfengistegundum í verslunum Heinemann á Keflavíkurflugvelli, Kaupmannahafnarflugvelli og Frankfurtflugvelli, sést að á Íslandi er áfengið 22-81% dýrara. Verðið er í öllum tilvikum fengið af vef viðkomandi verslunar.

Hærri áfengisskattar á Íslandi en í Danmörku og Þýskalandi geta mögulega að einhverju leyti skýrt þennan mun, en samkvæmt 3. grein laga um gjald af áfengi og tóbaki á að greiða í tollfrjálsri verslun 25% af fullu áfengisgjaldi.

Viskíið dýrara í fríhöfninni en Ríkinu
Hærri áfengisskattur skýrir þó alveg áreiðanlega ekki að dýr viskí eru til muna dýrari í Fríhöfninni, þar sem greiða á fjórðung af áfengisgjaldi, en í Vínbúðum ÁTVR, þar sem allar vörur bera fullt áfengisgjald. Í myndinni að neðan sjást nokkur dæmi um gömul og vönduð viskí, sem eru mun dýrari í Fríhöfninni en hjá ÁTVR. Þar er augljóslega um að ræða margfalt hærri álagningu í fríhafnarversluninni en í Vínbúðunum. Verðið er fengið af vef Vínbúðanna, en af hillumerkingum hjá Heinemann.

Á myndinni að ofan eru líka þrjú dæmi um rauðvín, sem eru aðeins 8-12% ódýrari í fríhöfninni í Keflavík en í Vínbúðinni. Vörur í fríhöfninni, eða Ísland Duty Free, eins og verslanirnar kallast eftir að Heinemann tók við rekstrinum, bera ekki virðisaukaskatt og einungis fjórðung áfengisgjalds, eins og áður segir. Verðmunurinn nemur hins vegar eingöngu u.þ.b. virðisaukaskattinum, sem er 11% á áfengi. Álagning Heinemann étur upp allan afsláttinn af áfengisgjaldinu.

Verðið hvorki hagstætt né samkeppnishæft
„Þessar tölur segja okkur að það hafi alls ekki gengið eftir, sem gengið var út frá í útboðsgögnum Isavia þegar rekstur fríhafnarinnar var boðinn út, að verðið yrði hagstætt og samkeppnishæft,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Við höfum áður gagnrýnt framkomu Heinemann við litla, innlenda framleiðendur, sem hafa verið þvingaðir til að lækka verð sitt þannig að hærri álagning renni í vasa þýska fyrirtækisins, enda hafa neytendur ekki orðið varir við verðlækkanir svo neinu nemi. Sú mynd virðist vera að teiknast upp að kröfur Isavia um háa leigu hafi í för með sér að álagning Heinemann sé út úr öllu korti. Neytendur njóta ekki sem skyldi þess afsláttar, sem tollfrjálsum verslunum er veittur af virðisaukaskatti og áfengissköttum, heldur rennur hann að meirihluta til í vasa Heinemann og Isavia. Enda er Heinemann í einokunarstöðu á Keflavíkurflugvelli, stöðu sem íslenska ríkið hefur framselt fyrirtækinu án þess að hafa nokkurt eftirlit með hvernig hún er notuð.“

Villandi að tala um Duty Free
Ólafur segir að ástæða sé til að ræða í þessu ljósi hvort rétt sé að kalla verslanir Heinemann í Keflavík fríhafnarverslanir eða „Duty Free“. „Þessi nafngift gefur til kynna að neytandinn njóti þess í lægra verði að þurfa ekki að greiða opinbera skatta og tolla. Það er full ástæða til að ræða hvort með þessari nafngift sé ekki hreinlega verið að villa um fyrir neytendum,“ segir framkvæmdastjóri FA. „Neytendastofa hefur ítrekað úrskurðað um notkun á hugtökunum fríhöfn og duty free. Hefur það verið niðurstaða Neytendastofu að hinn almenni neytandi leggi þann skilning í orðin „duty free“ og „fríhöfn“ að í þannig verslunum sé vöruverð almennt lægra en gengur og gerist en sé ekki endilega óháð öllum álögum eða gjöldum. Af því má álykta að þegar að verðið hættir að vera almennt lægra, eða verður einfaldlega hærra en gengur og gerist, þá sé það villandi að kalla sig fríhöfn eða duty free.“







Nýjar fréttir

Innskráning