Áfengisgjöld hafa hækkað um og yfir 100% frá hruni, sé boðuð hækkun um áramótin tekin með í reikninginn. Á sama tíma er útlit fyrir að hækkun vísitölu neysluverðs sé um 39%. Áfengisgjöldin hafa því hækkað gríðarlega umfram almennt verðlag í landinu, eins og sjá má á myndinni hér á síðunni.
Í september 2008 var áfengisgjald á sentilítra hreins vínanda í léttvíni 52,8 krónur. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 verður það 106,8 krónur og hefur þá hækkað um 102%. Áfengisgjaldið fyrir sterkt vín var 70,8 krónur fyrir hrun en verður um áramót 144,5 krónur, nái tillaga ríkisstjórnarinnar fram að ganga. Það er 104% hækkun. Áfengisgjaldið á hvern sentilítra vínanda í bjór var haustið 2008 58,7 krónur en gæti um áramót orðið 117,3 krónur eða 100% hærra.
Jafnvel þótt dregin sé frá rúmlega 20% hækkun áfengisgjalds í ársbyrjun 2016, sem var gerð til að mæta lækkun virðisaukaskatts úr 24,5% í 11%, liggur fyrir að áfengisgjaldið hefur verið hækkað um 40% umfram almennar verðlagshækkanir í landinu eftir hrun.
Samstaða 2007 um að lækka þyrfti gjöldin
Þetta skýtur skökku við, því að skömmu fyrir hrun var þverpólitísk samstaða um að skattlagning á áfengi væri orðin of há og talsmenn allra helstu flokka voru sammála um að draga þyrfti úr henni. Áhugavert er að rifja upp ummæli tveggja núverandi þingmanna í Blaðinu 20. júlí 2007.
Katrín Jakobsdóttir, núverandi formaður Vinstri grænna, sagði þar: „Ég held að neyslustýringin sé ekki að virka, og held að gjöld á áfengi hafi ekki áhrif á það hvernig vínmenning þróast.“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, nú þingmaður Viðreisnar, sagði: „Íslendingar eru fullfærir um að taka ákvarðanir um áfengisneyslu sjálfir, án þess að stjórnvöld stýri neyslu með háum áfengisgjöldum.“
Fróðlegt verður að sjá hvernig þessir þingmenn og aðrir greiða atkvæði um þá tillögu að hækka enn áfengisgjöldin.
Hækkun áfengisgjalda og vnv frá september 2008 – excel-skjal