Áfengisgjöld hækkuð langt umfram vísitölu

09.12.2016

Áfengisgjöld hafa hækkað um og yfir 100% frá hruni, sé boðuð hækkun um áramótin tekin með í reikninginn. Á sama tíma er útlit fyrir að hækkun vísitölu neysluverðs sé um 39%. Áfengisgjöldin hafa því hækkað gríðarlega umfram almennt verðlag í landinu, eins og sjá má á myndinni hér á síðunni.

Haekkun afengisgjalda fra 2008

Í september 2008 var áfengisgjald á sentilítra hreins vínanda í léttvíni 52,8 krónur. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 verður það 106,8 krónur og hefur þá hækkað um 102%. Áfengisgjaldið fyrir sterkt vín var 70,8 krónur fyrir hrun en verður um áramót 144,5 krónur, nái tillaga ríkisstjórnarinnar fram að ganga. Það er 104% hækkun. Áfengisgjaldið á hvern sentilítra vínanda í bjór var haustið 2008 58,7 krónur en gæti um áramót orðið 117,3 krónur eða 100% hærra.

Jafnvel þótt dregin sé frá rúmlega 20% hækkun áfengisgjalds í ársbyrjun 2016, sem var gerð til að mæta lækkun virðisaukaskatts úr 24,5% í 11%, liggur fyrir að áfengisgjaldið hefur verið hækkað um 40% umfram almennar verðlagshækkanir í landinu eftir hrun.

Samstaða 2007 um að lækka þyrfti gjöldin
Þetta skýtur skökku við, því að skömmu fyrir hrun var þverpólitísk samstaða um að skattlagning á áfengi væri orðin of há og talsmenn allra helstu flokka voru sammála um að draga þyrfti úr henni. Áhugavert er að rifja upp ummæli tveggja núverandi þingmanna í Blaðinu 20. júlí 2007.

Katrín Jakobsdóttir, núverandi formaður Vinstri grænna, sagði þar: „Ég held að neyslu­stýr­ing­in sé ekki að virka, og held að gjöld á áfengi hafi ekki áhrif á það hvernig vín­menn­ing þró­ast.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, nú þingmaður Viðreisnar, sagði: „Íslend­ing­ar eru full­fær­ir um að taka ákv­arðanir um áfeng­isneyslu sjálf­ir, án þess að stjórn­völd stýri neyslu með háum áfeng­is­gjöldum.“

Fróðlegt verður að sjá hvernig þessir þingmenn og aðrir greiða atkvæði um þá tillögu að hækka enn áfengisgjöldin.

Hækkun áfengisgjalda og vnv frá september 2008 – excel-skjal

Nýjar fréttir

Innskráning