Áfengislög að hluta marklaus bókstafur

16.12.2021

Félag atvinnurekenda hefur sent Jóni Gunnarssyni innanríkisráðherra erindi og hvatt ráðherrann til að ráðast í heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni, enda séu boð hennar og bönn orðin götótt og lögin að hluta til marklaus bókstafur.

Margar leiðir framhjá einkarétti ríkisins
Dómsmálaráðuneytið hefur sjálft vísað til þess í bréfi til FA að áfengislögin „hafi ekki þróast í takt við þá samfélagslegu þróun sem orðið hefur á undanförnum árum.“  Í erindi sínu til ráðherra bendir FA á að þróun samskiptatækni og verslunarhátta hafi holað að innan boð og bönn áfengislaganna og þau séu að verulegu leyti orðin marklaus. Setti ráðuneytið fram það mat að á undanförnum árum hefðu komið upp ýmis álitaefni „sem hafa bent til þess að mikilvægt sé að ráðast í heildarendurskoðun á áfengislögum til að þau endurspegli breytta þróun á sviði verslunar og framleiðslu áfengis hér á landi.“

FA bendir á að í orði kveðnu hafi ríkið einkarétt á smásölu áfengis innanlands. Í raun séu þó farnar margar leiðir framhjá þeim einkarétti. Árum saman hafi neytendur getað keypt áfengi af netverslunum í ríkjum Evrópska efnahagssvæðsins. Upp á síðkastið hafi svo orðið til netverslanir með áfengi, reknar af innlendum aðilum. Áfengi sé selt beint frá smærri brugghúsum þótt lagaheimild til þess skorti og jafnvel sé hægt að taka með sér óopnaðar bjórflöskur frá þjóðvegaveitingastöðum. Þá sé áfengi selt í vín- eða smakkklúbbum án atbeina Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

„Við ofangreinda starfsemi gera þar til bær stjórnvöld engar athugasemdir. Af upptalningunni má ráða að bann áfengislaga við því að aðrir en ríkið selji áfengi í smásölu er orðið býsna götótt,“ segir í erindi FA.

Innlendir fjölmiðlar og framleiðendur þeir sem aðallega tapa á áfengisauglýsingabanni
Jafnframt eru áfengisauglýsingar bannaðar í orði kveðnu, en allir viti þó að það bann haldi ekki í raun. Áfengisauglýsingar séu fyrir augum íslenskra neytenda daglega, í erlendum blöðum og tímaritum sem seld eru hér á landi, á íþróttaviðburðum sem sjónvarpað er beint hér á landi og á alþjóðlegum samfélagsmiðlum og vefsíðum.

„Þeir, sem fyrst og fremst tapa á auglýsingabanni áfengislaganna, eru tveir hópar fyrirtækja. Annars vegar innlendir áfengisframleiðendur, sem ekki geta auglýst vörur sínar í innlendum miðlum nema þá með óbeinum hætti með því að auglýsa sömu vörumerki án áfengisinnihalds eða innan við 2,25% styrkleika. Hins vegar eru það innlendir fjölmiðlar sem njóta ekki tekna af áfengisauglýsingum innlendra aðila á áfengismarkaði. Þeir síðarnefndu skipta fremur við hina alþjóðlegu samfélagsmiðla, sem njóta þá teknanna. Þetta er fráleit staða,“ segir í erindi FA.

Engar reglur til um starfsemi sem er rekin fyrir allra augum
FA bendir á að þessi veruleiki þýði að engar reglur séu til um starfsemi, sem engu að síður þrífst og fer fram fyrir opnum tjöldum. „Þannig eru engar reglur til um netverzlun með áfengi, t.d. hvernig viðskiptavinir auðkenna sig og sanna aldur sinn eða hver afhendingarfrestur er eftir að viðskipti hafa farið fram. Engar reglur eru heldur til um áfengisauglýsingar, hvernig þær skuli úr garði gerðar eða að hverjum þær megi beinast, vegna þess að löggjöfin gengur út frá því að þær séu ekki til,“ segir í bréfi félagsins, sem Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri undirritar. „Að mati FA er ábyrgðarhluti af hálfu stjórnvalda að leyfa þessu ástandi að viðgangast. Út frá lýðheilsu- og forvarnasjónarmiðum, sem oft er haldið á lofti í umræðu um áfengismarkaðinn, er miklu vænlegra að leyfa starfsemina með afdráttarlausum hætti og setja um leið um hana skýrar og skynsamlegar reglur. Núverandi ástand má helzt kenna við villta vestrið.“

Augljóst er, að mati FA, að áfengislögin hafa ekki fylgt tækni- og samfélagsþróun og eru á marga lund úrelt. „Það að ýmis starfsemi fari fram í beinni andstöðu við ákvæði laganna er augljóslega óheppilegt og sízt til þess fallið að ýta undir virðingu borgaranna fyrir lögum í landinu. Stjórnvöld og löggjafinn ættu ævinlega, einnig í þessum efnum, að kappkosta að löggjöfin fylgi eðlilegri þróun samfélags og efnahagslífs og dagi ekki uppi sem marklaus bókstafur,“ segir í erindinu til ráðherra.

Óskýr svör um netverzlun gera lagabreytingar enn brýnni
Samhliða áskorun til ráðherrans um að ráðast í heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni sendi FA dómsmálaráðuneytinu annað bréf, þar sem enn eru ítrekaðar spurningar félagsins til ráðuneytisins um lögmæti ólíkra forma netverzlana með áfengi. Vísað er til þess erindis í bréfinu til Jóns Gunnarssonar. „Sé raunin sú að ráðuneytið treysti sér ekki til að svara skýrt, liggur í augum uppi að tilefnið til þess að gera gangskör að endurskoðun löggjafarinnar er afar brýnt, þannig að eyða megi óvissu og tryggja öryggi í viðskiptum,“ segir í erindi FA til innanríkisráðherrans.

Erindi FA um heildarendurskoðun áfengislaga
Ítrekun á spurningum FA um lögmæti netverslunar með áfengi

Nýjar fréttir

Innskráning