Áfengisskattar og atvinnustefna

09.12.2021

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 9. desember 2021.

Áfengisframleiðsla er vaxandi atvinnugrein á Íslandi.

Áfengisskattar hækka um 2,5% á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Ekkert ógnar Evrópumeti (og líklega heimsmeti) Íslands í álagningu áfengisskatta. Áfengisgjöld, sem eru lögð á einingu hreins vínanda, eru margfalt hærri en í flestum ríkjum Evrópu. Þannig eru áfengisgjöld á sterkt áfengi 387% yfir meðaltali 36 Evrópuríkja sem samtökin Spirits Europe safna gögnum frá. Ef horft er á léttvín eru gjöldin 584% yfir Evrópumeðaltalinu (hátt í sjöföld skattlagning). Talan fyrir bjór er 345%. Á móti þessu kemur að Ísland leggur lægri virðisaukaskatt á áfengi en flest Evrópuríki, en sé skattlagningin lögð saman finnst bara eitt dæmi um að Evrópuríki leggi þyngri álögur á áfenga drykki en Ísland – það er hærri skattur á bjór í Noregi.

Okkur er iðulega sagt að áfengisskattar séu lagðir á í þágu lýðheilsu – til að passa að við fáum okkur ekki of mikið. Virka mögulega aðrar leiðir betur, t.d. fræðsla um skaðsemi ofneyzlu áfengis? Og erum við svona mikið verri drykkjumenn en Evrópubúar að meðaltali, að það þurfi að skattleggja okkur margfalt meira? Þessum spurningum svara stjórnmálamenn aldrei – og ekki heldur spurningunni um hvar mörk skattlagningarinnar liggi. Er endalaust hægt að halda áfram að hækka áfengisskatta?

Burtséð frá lýðheilsuvinklinum spila áfengisskattar augljóslega inn í atvinnustefnu. Hið fáránlega háa áfengisverð, sem þeir búa til, skaðar til dæmis samkeppnishæfni íslenzkrar ferðaþjónustu stórlega. Framleiðsla áfengis er líka hraðvaxandi atvinnugrein á Íslandi. Víða um land framleiða stór og smá fyrirtæki frábærar vörur, bæði áfengt öl og sterkt áfengi. Þessi fyrirtæki ættu að sjálfsögðu að hafa heimild til að selja ferðamönnum vörur sínar milliliðalaust, eins og stjórnvöld hafa verið til í að skoða. Hóflegri skattlagning er sömuleiðis augljóst tækifæri til að efla þessa atvinnustarfsemi. Er einhver til í að skoða það?

Nýjar fréttir

Innskráning