Afnám frystiskyldu á kjöti eykur úrval og jafnar framboð

07.01.2020
Gera má ráð fyrir að gæði, ekki síst í nautakjöti, aukist með innflutningi á fersku kjöti.

Nýjar reglur um innflutning á fersku kjöti og eggjum tóku gildi um áramótin. Bann við innflutningi á þessum vörum, sem hafði verið dæmt í andstöðu við EES-samninginn bæði í Hæstarétti og EFTA-dómstólnum, féll þá úr gildi. Félag atvinnurekenda (FA) fagnar þessum merka áfanga í afnámi hafta á innflutningi og telur ljóst að þessi breyting muni bæði stuðla að meira úrvali og jafnara framboði, sérstaklega á kjötvörum. Enn sem komið er hefur hvorki ferskt kjöt né egg verið flutt til landsins og má gera ráð fyrir að fyrst um sinn verði þessi innflutningur í mjög takmörkuðu magni.

Frá og með áramótum er ekki lengur áskilið að kjöt sem flutt er til landsins þurfi að hafa verið frosið í 30 daga. Kerfi leyfisveitinga vegna innflutnings fellur jafnframt niður og kjötvörur og egg eru í frjálsu flæði á öllu Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Um áramót tóku hins vegar gildi margvíslegar reglugerðir um svokallaðar viðbótartryggingar. Innflytjendur þurfa að sýna fram á að ferskt kjöt af alifuglum sé laust við kamfýlóbakter og innflutningi á eggjum, svínakjöti, nautakjöti og alifuglakjöti þurfa að fylgja vottorð um að varan sé laus við salmonellu. Hinar nýju reglur eru mjög umfangsmiklar og þurfa innflytjendur að uppfylla ýtrustu heilbrigðiskröfur.

Engin ferskvara flutt inn enn sem komið er
Enn sem komið er hefur engin ferskvara verið flutt inn eða pöntuð til landsins, eftir því sem FA kemst næst. Það skýrist af tvennu.

Í fyrsta lagi gaf Matvælastofnun (MAST) ekki út leiðbeiningar um framkvæmd reglugerðanna fyrr en 20. desember, en þá voru þrír virkir dagar eftir af síðasta ári. Matvöruinnflytjendur eru nú að fara yfir leiðbeiningarnar ásamt birgjum sínum í EES-ríkjum, en það er talsverð vinna að koma á nýju verklagi.

Í öðru lagi eru innflytjendur að skoða í samstarfi við birgja sína og innlenda viðskiptavini hvaða vörur henta til innflutnings. Ferskvara er eðli málsins samkvæmt viðkvæmari en frosin og þarf að endurskipuleggja alla virðis- og flutningakeðju vörunnar, frá framleiðanda til veitingahúss eða verslunar. Þetta er einnig tímafrekt ferli.

Líklegast að nautakjöt í hærri gæðaflokkum verði flutt inn
Samkvæmt þeim upplýsingum, sem FA hefur aflað hjá innflutningsfyrirtækjum, er afar ólíklegt að ferskt svína- eða alifuglakjöt verði flutt til landsins svo nokkru nemi vegna takmarkaðs líftíma þeirrar vöru. Sú vara, sem væntanlega verður fyrst og fremst flutt inn fersk, er nautgripakjöt í hærri gæðaflokkum, fyrir verslanir með eigin kjötborð og veitingastaði. Þá eru einhverjir innflytjendur að skoða möguleika á innflutningi á ferskum eggjum.

Afnám frystiskyldu jafnar framboð
Afnám 30 daga frystiskyldu þýðir að innflytjendur geta brugðist hraðar við skorti á tilteknum vörum, jafnvel þótt viðkomandi vara sé flutt inn frosin. Það verður þá liðin tíð að innflytjendur þurfi að bíða með að flytja inn vöru þar til 30 daga markinu er náð. Þetta þýðir jafnara framboð á kjötmarkaði og þá væntanlega hagstæðara verð, auk þess sem tollkvótar fyrir innflutning á kjöti nýtast betur.

Áhyggjur ástæðulausar
„Áhyggjur, sem andstæðingar frjálsræðis í milliríkjaviðskiptum hafa viðrað vegna breytinganna um áramótin eru ástæðulausar,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Annars vegar bendir ekkert til annars en að innflutningur á ferskum búvörum verði fremur takmarkaður, þótt hann hafi vissulega jákvæð áhrif. Hins vegar gilda um þennan innflutning afar strangar reglur, raunar þær ströngustu í EES. Vernd neytenda gegn sjúkdómum er vel tryggð en þeir njóta ávaxta aukins frjálsræðis í viðskiptum,“ segir Ólafur.

Umfjöllun RÚV

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning