Afnám sérréttinda er forsenda hagræðingar

18.12.2024

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptamogganum 18. desember 2024

Viðskiptaráð Íslands birti í síðustu viku áhugaverða úttekt, þar sem leitazt var við að meta til fjár ýmis sérréttindi, sem opinberir starfsmenn njóta umfram starfsfólk á almennum vinnumarkaði. Niðurstaðan er að hin ýmsu starfstengdu sérréttindi opinberra starfsmanna samsvara tæplega 19% kauphækkun.

Þar munar mest um styttri vinnuviku, sem reiknast til 11,1% kaupauka. Í kjarasamningunum 2019 þóttust ríki og sveitarfélög hafa gert kjarasamninga sem rúmuðust innan ramma Lífskjarasamningsins svokallaða á almennum vinnumarkaði. Reyndin var hins vegar sú að starfsfólk hins opinbera fékk miklu ríflegri styttingu vinnuvikunnar. Dæmi eru hjá hinu opinbera um fjögurra klukkustunda styttingu vinnuvikunnar án þess að neyzluhlé hafi fallið niður. Breytingin, sem upphaflega átti ekki að kosta meira en stytting vinnutíma á almenna markaðnum, varð langtum dýrari í framkvæmd en lagt var upp með, meðal annars vegna þess að hún bjó til stórt mönnunargat hjá vaktavinnuhópum. Þá hefur hún víða haft í för með sér skerta þjónustu hins opinbera.

Aðrir þættir sem Viðskiptaráð reiknar til kauphækkana hjá opinberum starfsmönnum eru ríkari veikindaréttur (3,3%), meira starfsöryggi (2,7%) og lengra orlof (1,4%).

Allt þetta hlýtur að þurfa að hafa í huga þegar hópar opinberra starfsmanna í kjarabaráttu krefjast sömu launa og hjá sambærilegum hópum á almenna markaðnum. Kjörin hljóta þá að eiga að vera sambærileg að fullu.

Hitt er svo annað mál að í stjórnsýslunni, sem hefur þanizt hratt út á undanförnum árum og bætt við sig fjölda starfsfólks, er það sem kemur upp úr launaumslaginu orðið mjög sambærilegt eða betra en tíðkast á almenna vinnumarkaðnum. Í skýrslu, sem ráðgjafarfyrirtækið Intellecon vann fyrir Félag atvinnurekenda fyrir tæpum tveimur árum, kom fram að greidd laun í opinberri stjórnsýslu væru almennt hærri en í flestum öðrum starfsgreinum. Þegar sérréttindin bætast við, er kannski ekki að furða þótt fyrirtæki á almennum markaði eigi fullt í fangi með að keppa við ríkið um sérhæft starfsfólk, einkum sérfræðinga og stjórnendur.

Sérréttindi á opinbera vinnumarkaðnum eru ekki bara óréttlát og dýr, heldur gera þau stjórnun opinberra stofnana erfiðari. Það á ekki sízt við um ákvæði laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sem fela í sér ríka uppsagnarvernd. Kannanir á meðal forstöðumanna ríkisstofnana hafa ítrekað sýnt að þeir telja starfsmannalögin standa í vegi fyrir skilvirkni, hagræðingu og bættri þjónustu hjá hinu opinbera. Hin ríka uppsagnarvernd opinberra starfsmanna sé á kostnað skilvirkni í rekstrinum. Mjög neikvæð viðhorf ríki innan opinbera geirans í garð áminninga og uppsagna og í raun sé ómögulegt að segja starfsfólki upp nema það geri alvarleg mistök í starfi – eða þá að starfið sé lagt niður vegna skipulagsbreytinga.

Nú sitja fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins við samningaborð og reyna að ná saman um stjórnarsáttmála. Eitt af meginmarkmiðum flokkanna er að ná jafnvægi í ríkisfjármálum til að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Til að ná tökum á rekstri hins opinbera með hagræðingu og fækkun starfsfólks er lykilatriði af afnema sérréttindi á borð við uppsagnarverndina.

Er líklegt að flokkarnir hafi pólitískan kjark til slíks? Miðað við ummæli talsmanna þeirra í Kaffikróknum, hlaðvarpsþætti Félags atvinnurekenda, í aðdraganda kosninga, má gera sér vonir um það. „Ef við ætlum að taka til, þarf að fara með mjög gagnrýnum hætti ofan í þessi mál,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, í Kaffikróknum, aðspurð um starfsmannalöggjöfina. Í svari við sams konar spurningu sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar: „Við erum alveg opin fyrir því að gera breytingar á þessum lögum. Það þarf bara að gerast með eðlilegum hætti, í takt við nútímavinnumarkað. Ég á bara mjög bágt með að trúa því að ef maður myndi tala við nýjustu starfsmennina í stjórnsýslunni, ungt fólk, að það gerði athugasemdir við það.“

Nýjar fréttir

Innskráning