Alþingi samþykkti síðastliðinn laugardag tillögu Sigríðar Á. Andersen og sex annarra þingmanna um að afnema 59% toll á innfluttu kartöflusnakki. Tollurinn fellur úr gildi 1. janúar 2017. Félag atvinnurekenda fagnar þessari niðurstöðu.
„FA hefur um árabil barist gegn þessum ósanngjarna og ómálefnalega tolli,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Það er mikið ánægjuefni að Alþingi hafi tekið af skarið í þessu máli. Um helgina var líka samþykkt afnám annars matartolls, sem lagðist á ís unninn úr jurtamjólk. Það er að byrja að örla á viðurkenningu hjá löggjafanum á því að tollar á matvörur sem lítið eða ekkert er framleitt af á Íslandi eru ónauðsynlegir, vernda engan innlendan landbúnað og bitna eingöngu á neytendum.“
Ólafur vísar til ummæla Sigríðar Á. Andersen í Morgunblaðinu í dag, þar sem hún segir að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hyggist nota vel tímann fram að 1. janúar 2017 til að endurskoða núverandi fyrirkomulag á tollum á matvælum. „Þau áform eru mikið fagnaðarefni og bendir til að málflutningur FA um að ekki eigi að undanskilja matartollana í tollalækkunaráformum stjórnvalda sé að ná í gegn.“
Snakkmálið flutt í Hæstarétti í febrúar
Nokkrir helstu innflytjendur snakks hafa rekið mál á hendur stjórnvöldum vegna snakktollsins og haldið því fram að þessi tuga prósenta verndartollur standist hvorki ákvæði stjórnarskrár um skattlagningu né jafnræðisreglu. Málin töpuðust í héraðsdómi en verða flutt í febrúar næstkomandi fyrir fjölskipuðum Hæstarétti. „Það er afstaða umbjóðanda minna að afbrigðilega há gjaldtaka sem leggst á fáar og sérvaldar vörur án neinna haldbærra réttlætinga standist ekki þær ríku kröfur sem gerðar eru til skattlagningar í íslenskum rétti. Gjaldtakan er að þeirra mati ólögmæt og gera þau því þá kröfu að þeim sé skilað því sem ríkið hefur oftekið,“ segir Páll Rúnar Mikael Kristjánsson hæstaréttarlögmaður sem flytur málin.