Afnám tolla og vörugjalda skilaði sér til neytenda og álagning minnkaði

29.09.2017

Afnám tolla og vörugjalda á árunum 2015-2017 skilaði sér í vasa neytenda, samkvæmt niðurstöðum nýrrar skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið. Smásöluverð lækkaði á átta vörum sem skoðaðar voru; sykurvörum, fatnaði og heimilistækjum. Þá lækkaði álagning kaupmanna á flestum vörunum í krónum talið. Fram kemur í niðurstöðum Hagfræðistofnunar að  smásöluverð hafi lækkað um leið og fyrirkomulagi neysluskatta var breytt. Í þeim tilvikum sem mæld álagning jókst yfir tímabilið fáist ólík niðurstaða eftir því hvaða mælikvarði sé notaður á smásöluverð, og ríki því meiri óvissa um þær niðurstöður en aðrar.

„Þessi niðurstaða staðfestir að barátta Félags atvinnurekenda og annarra fyrir afnámi tolla og vörugjalda skilaði árangri, bæði fyrir neytendur og verslunina í landinu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Þá hrekja þessar niðurstöður fullyrðingar um að tollalækkanir hafi ekki skilað sér og hrakspár um að frekara afnám tolla muni bara renna í vasa verslunarinnar.“

Sömu rök eiga við um matartolla
Ólafur bendir á rökstuðning Hagfræðistofnunar fyrir tollalækkunum, en í skýrslu hennar segir: „Tollar hamla gegn milliríkjaviðskiptum og vinna því gegn því að vörur séu framleiddar þar sem það er hagkvæmast. Því hærri sem tollarnir eru, þeim mun meira draga þeir úr viðskiptum milli landa. Hver þjóð fær síður að njóta sín í því að framleiða það sem hún er best í að framleiða. Almennt er því talið að tollar dragi úr velferð. Óheft milliríkjaviðskipti eru sérstaklega mikilvæg fyrir smáþjóðir vegna þess að þar munar allajafna mest um viðskipti við útlönd.“

Ólafur segir að þessi rökstuðningur eigi við um viðskipti með allar vörur. „Matvörur voru undanskildar í tollalækkunarhrinunni sem síðasta ríkisstjórn beitti sér fyrir. Við hvetjum stjórnvöld til að halda áfram á sömu braut og taka skref í átt til afnáms tolla á matvörum. Það mun skila sér í þágu heildarhagsmuna.“

Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur fram að árið 2014 hafi hlutdeild tolla í heildarskatttekjum verið 1%, en hún hafi verið komin niður í 0,4% á síðasta ári. „Þetta sýnir vel að rökstuðningur ríkisvaldsins í dómsmálum, þar sem innflutningsfyrirtæki hafa látið reyna á ofurtolla eins og á snakki og frönskum kartöflum; að þetta séu tollar til tekjuöflunar en ekki verndartollar; er tómur fyrirsláttur. Tekjur af tollum skipta í raun engu máli lengur á tekjuhlið ríkissjóðs,“ segir Ólafur.

 

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning