Áfram unnið að því að bæta vörudreifingu í miðborginni

18.04.2024

Fulltrúar Reykjavíkurborgar, Félags atvinnurekenda, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og íbúasamtaka miðborgarinnar fóru í morgun í vettvangsferð um miðborgina til að skoða aðstæður til vörudreifingar til verslana, veitinga- og gististaða og ræða leiðir til að greiða enn frekar fyrir skilvirkri vörudreifingu.

Vettvangsferðir af þessu tagi eru liður í samstarfi borgarinnar, FA og fleiri félagasamtaka um að greiða götu vörudreifingar í miðborginni og tryggja að hún sé í sem bestri sátt við rekstraraðila, íbúa og vegfarendur í miðbænum. FA átti frumkvæði að þessu samstarfi fyrir rúmum sex árum ásamt Klúbbi matreiðslumeistara og hefur það síðan skilað góðum árangri.

Meðal annars hefur borgin fjölgað sérmerktum stæðum sem eru frátekin fyrir vörulosun á tímabilinu kl. 7-11 á morgnana, bætt merkingar og hnikað til götugögnum á borð við blómaker og skilti til að bæta aðstæður fyrir vörudreifingarbíla. Nýjasta vörulosunarstæðið er við Hverfisgötu. Þá hefur vist- og göngugötuvæðing í miðborginni greitt verulega fyrir skilvirkri vörudreifingu.

Í vettvangsferðinni í morgun voru m.a. starfsmenn við vörulosun og -dreifingu hjá félagsmönnum FA og komu þeir með ýmsar ábendingar til starfsmanna borgarinnar um hvað betur mætti fara. Daglega dreifa félagsmenn FA tugum tonna af mat, drykkjar- og rekstrarvörum af margvíslegu tagi til fyrirtækja í miðborginni.

Síða Reykjavíkurborgar um vörulosun

Nýjar fréttir

Innskráning