Áfram verður pitsuosturinn teygður

25.01.2024

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Bændablaðinu 25. janúar 2024.

Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá Mjólkursamsölunni, skrifar grein í síðasta tölublað Bændablaðsins og fjallar um deilur um tollflokkun á pitsuosti með íblandaðri jurtaolíu, sem félagsmaður Félags atvinnurekenda flutti inn. Óhjákvæmilegt er að gera nokkrar athugasemdir við skrifin.

BÍ og MS fengu tollflokkun breytt
Í fyrsta lagi lætur Erna það líta þannig út, að fyrirtækið hafi flokkað ostinn ranglega í tollnúmer sem ekki ber tolla, en tollgæzlustjóri gripið í taumana og flokkað ostinn réttilega, þannig að hann bæri tolla. Svona einfalt var það hins vegar ekki. Pitsuosturinn var, samkvæmt fullri vitneskju og ráðleggingum starfsmanna tollgæzlustjóra, fluttur inn á tollnúmeri sem ekki bar tolla. Það tollnúmer var í samræmi við tollflokkun Evrópusambandsins (þaðan sem osturinn var fluttur út) á vörunni og flokkun hennar hjá Alþjóðatollastofnuninni, eins og síðar hefur verið staðfest.

Vinnuveitandi Ernu, Mjólkursamsalan, og Bændasamtök Íslands, sáu hins vegar ofsjónum yfir þessum innflutningi og beittu stjórnvöld þrýstingi að breyta tollflokkuninni. Þessir aðilar kröfðust þess við fjármálaráðuneytið og Skattinn að tollflokkun vörunnar yrði breytt og eftir talsverða rekistefnu, þar sem heil deild tollstjóraembættisins sagði sig frá málinu vegna þess að hún vildi ekki taka þátt í að „fremja ólög“ eins og yfirmaður hennar sagði síðar eiðsvarinn fyrir dómi, varð það niðurstaðan.

Tollasvindlið fannst ekki
Erna og fleiri talsmenn hagsmunaaðila í landbúnaði höfðu áður haft uppi stór orð um meint misræmi í tölum um útflutning búvara frá Evrópusambandinu og innflutning sömu vara til Íslands og sakað innflutningsfyrirtæki um stórfellt tollasvindl, þar á meðal í innflutningi á pitsuosti, með því að tollflokka vörur rangt. Erna endurtók þær ásakanir margoft, meðal annars í sjónvarpsþætti á Hringbraut í apríl 2021. Ríkisendurskoðun átti hins vegar eftir að kveða upp úr um að í þessu tilviki, hvað varðar pitsuostinn, varð misræmið ekki til fyrr en íslenzk stjórnvöld, undir þrýstingi frá MS og Bændasamtökunum, breyttu tollflokkuninni. Það var allt tollasvindlið.

Óvönduð stjórnsýsla
Erna veltir því í öðru lagi fyrir sér hvað greinarhöfundur hafi verið að gera á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis 19. apríl 2023, þar sem rætt var um þetta mál. „Síðan hvenær er það hlutverk þingnefnda að taka við kvörtunum frá einkaaðilum yfir niðurstöðum dómstóla? Getum við ekki örugglega treyst á aðskilnað milli dómsvalds og löggjafarvalds eins og mælt er fyrir um í 2. gr. stjórnarskrárinnar?“ spyr Erna í grein sinni.

Fulltrúar FA voru ekki mættir á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til að kvarta undan niðurstöðum dómstóla, heldur til að gera nefndinni grein fyrir fádæma óvandaðri stjórnsýslu í málinu. Málið hafði komizt á dagskrá nefndarinnar árið 2020 og verið rætt þar á þremur fundum, þá út frá ásökunum Ernu og annarra um stórfellt tollasvindl. Á meðal þess sem fulltrúar FA gerðu þingmönnum grein fyrir á fundinum var hvernig Skatturinn leyndi aðila málsins, félagsmann FA, lykilgögnum í málinu, hvernig Skatturinn og fjármálaráðuneytið leyndu dómstóla gögnum og hvernig MS og Bændasamtökin höfðu í hæsta máta óeðlilegan aðgang að stjórnsýslunni í hagsmunagæzlu sinni.

Þannig er í gögnum málsins tölvupóstur frá starfsmanni Skattsins til lögmanns MS, þar sem fyrirtækinu er heitið því að tollflokkun vörunnar sem um ræðir verði breytt – áður en formleg ákvörðun hafði verið tekin þar um – og því auk þess lofað að opinber gjöld yrðu endurálögð á keppinauta MS í samræmi við hina nýju tollflokkun. Með öðrum orðum fengu fyrirtæki sem höfðu flutt vöruna inn í samræmi við ráðleggingar starfsmanna Skattsins bakreikning frá sama embætti. Ef Erna hefur áhyggjur af óeðlilegum samskiptum einkaaðila og ríkisvaldsins ætti hún kannski frekar að staldra við þetta atriði.

Málinu er ekki lokið
Í þriðja lagi staðhæfir Erna að hinu svokallaða „Pizza Mix“-máli sé nú lokið. Það er ekki svo. Þegar ríki hafa undirgengizt alþjóðlegar skuldbindingar um milliríkjaviðskipti er röng niðurstaða innanlands ekki endanleg. Breytingar íslenzkra stjórnvalda á tollflokkun vörunnar, sem hér um ræðir, ganga bæði gegn skuldbindingum þeirra á vettvangi Alþjóðatollastofnunarinnar og gegn EES-samningnum.

Að mati FA og Íslensk-evrópska viðskiptaráðsins, sem FA starfrækir, skapar þetta mál grafalvarlegt fordæmi um að stjórnvöld geti, þegar það hentar þeim, breytt tollflokkun á vörum þvert á alþjóðlegar skuldbindingar. Með því er hagsmunum íslenzkra innflutningsfyrirtækja í hættu stefnt – og ekki síður myndi það ógna íslenzkum útflutningshagsmunum ef stjórnvöld í útflutningsríkjum Íslands teldu sig geta breytt tollflokkun á íslenzkum útflutningsvörum að eigin geðþótta.  Það má því fastlega gera ráð fyrir að málið fari bæði í formlegt kvörtunarferli innan Evrópusambandsins og komi til kasta Eftirlitsstofnunar EFTA. Þetta vonda fordæmi má ekki standa.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning