Áhugaleysi stjórnvalda um samkeppni

04.01.2016

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í sérblaði Viðskiptablaðsins, „Áramót“, 30. desember 2015.

Keflavíkurflugvöllur þrengri
Afstaða innanríkisráðherra til tilmæla Samkeppniseftirlitsins um úthlutun afgreiðslutíma fyrir flugvélar á Keflavíkurflugvelli hefur enn ekki komið fram.

Samkeppniseftirlitið stóð undir lok ársins fyrir fundi undir yfirskriftinni „Áhrif stjórnvalda á samkeppni“. Frummælandi var sérfræðingur frá OECD, sem fjallaði um mikilvægi þess að meta kerfisbundið áhrif laga og reglna á samkeppni. Þá er ekki átt við samkeppnislöggjöfina, heldur alls konar aðra löggjöf og stjórnvaldsfyrirmæli, sem geta falið í sér samkeppnishindranir.

OECD hefur mótað aðferðafræði við svokallað samkeppnismat, sem Samkeppniseftirlitið hér á landi hefur hvatt stjórnvöld til að taka upp. Á fundinum kom fram að þessi aðferð væri skilvirk leið til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins, eins og núverandi ríkisstjórn segist stefna að (þótt lítið hafi farið fyrir aðgerðum í þá veru) og nefnd dæmi frá Ástralíu og Grikklandi um að slíkt endurmat skilar sér beint í aukinni framleiðni og hagvexti.

Hér á landi er það hins vegar svo að stjórnvöld eru oft og tíðum sérkennilega áhugalaus um aðgerðir til að efla samkeppni. Ég get nefnt hér nokkur mál sem Félag atvinnurekenda hefur látið til sín taka á árinu:

  • Samkeppniseftirlitið beindi tilmælum til Samgöngustofu og innanríkisráðherra vegna samkeppnishindrana sem felast í fyrirkomulagi við úthlutun afgreiðslutíma fyrir flugvélar á Keflavíkurflugvelli. OECD hafði fyrr á árinu hvatt stjórnvöld til að taka fastar á þessu máli. Engin viðbrögð hafa komið úr ráðuneytinu við þessum tilmælum.
  • Árum saman hafa stjórnvöld hunzað tilmæli Samkeppniseftirlitsins og annarra opinberra stofnana og nefnda sem hafa hvatt til aukinnar samkeppni í landbúnaði og að tollar verði lækkaðir til að stuðla að lægra matvöruverði. „Það stoðar t.d. lítið að stjórnvöld gagnrýni hátt verðlag á matvöru ef þau eru sjálf ekki reiðubúin að grípa til aðgerða sem til þess eru fallnar að efla samkeppni,“ sagði í skýrslu SE um dagvörumarkaðinn fyrr á árinu, enn einni skýrslunni sem stjórnvöld hafa ekkert gert með.
  • Samkeppniseftirlitið hefur talið útboð á tollkvóta vegna innflutnings búvara samkeppnishamlandi og andstætt hagsmunum neytenda. Stofnunin hefur ítrekað lagt til að frekar yrði farin sú leið að varpa hlutkesti um tollkvótana. Í marz komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að útboðsgjaldið væri ólögmætur skattur og í andstöðu við stjórnarskrá. Viðbrögð Alþingis voru þau að festa útboðsgjaldið í sessi og fella út úr búvörulögum þann möguleika að varpa hlutkesti um tollkvóta. Þannig fór löggjafinn þvert á tilmæli samkeppnisyfirvalda.
  • Fjármálaráðuneytið hefur í meira en þrjú ár brotið lög um opinber innkaup með því að bjóða ekki út innkaup ríkisins á flugmiðum. Útboð myndi spara skattgreiðendum fé og stuðla að því að fyrirtæki kepptu um viðskipti ríkisins á jafnræðisgrundvelli. Útboð var boðað á fyrri hluta ársins en hefur enn ekki verið auglýst. Ráðuneytið svarar ekki bréfum þar sem spurt er hvenær eigi að bæta úr því.
  • Í meira en þrjú ár hafa tveir ráðherrar sjávarútvegsmála ekkert gert með tilmæli Samkeppniseftirlitsins um lagabreytingar til að draga úr samkeppnishömlum í sjávarútvegi, en fiskvinnslufyrirtæki án útgerðar standa höllum fæti í samkeppni við lóðrétt samþættar fiskvinnslur og útgerðir. Eins og á fleiri bæjum er bréfum, þar sem spurt er hvað úrbótum líði, ekki svarað.
  • FA vakti síðastliðið sumar athygli á þeirri ósanngjörnu samkeppni sem ríkið stundaði við verzlunina í landinu með rekstri pöntunarþjónustu Fríhafnarinnar í Leifsstöð. Pöntunarþjónustan er rekin í andstöðu við fyrri afstöðu og fyrirmæli fjármálaráðuneytisins. Eftir að FA hafði skrifað fjármálaráðuneytinu tvisvar til að kanna hvort afstaða þessi hefði breytzt, barst svar að þremur mánuðum liðnum, þar sem ekki var tekin efnisleg afstaða til málsins.

Hér er hreinlega ekki pláss til að telja upp fleiri dæmi, en af nógu er að taka. Hefðu stjórnvöld sinnt hvatningu Samkeppniseftirlitsins og OECD um að taka upp markviss vinnubrögð til að ryðja samkeppnishömlum í atvinnulífinu úr vegi má gera ráð fyrir að staðan í öllum þessum málum væri talsvert mikið öðruvísi.

Röskun á samkeppni hefur oftar en ekki þær afleiðingar að fáir hagnast en neytendur og samfélagið tapa. Með því að bregðast við samkeppnishindrunum er því verið að gæta hagsmuna neytenda og samfélagsins en með því að standa vörð um þær er verið að gæta hagsmuna fárra með miklum tilkostnaði.

Stjórnvöld gætu strengt mörg vitlausari áramótaheit en þau að ráðast í rækilega úttekt á því hvernig þeirra eigin reglusetning, aðgerðir og aðgerðaleysi hamla virkri og öflugri samkeppni.

Nýjar fréttir

Innskráning