Áhugaverður fundur um stöðu fyrirtækja gagnvart lánveitendum

12.10.2012

76187a241ffc1a88Félag atvinnurekenda stóð fyrir opnum fundi á veitingahúsinu Nauthól þann 11. október undir yfirskriftinni „Staða fyrirtækja gagnvart lánveitendum – Hvað má betur fara í háttsemi og viðskiptaháttum?“. Fundurinn var vel sóttur og mynduðust góðar umræður milli fundargesta enda ljóst að margir telja að lánveitendur mættu bæta viðskiptahætti sína og háttsemi gagnvart lántökum.

Ragnar Halldór Hall, hæstaréttarlögmaður opnaði fundinn með erindi sínu um vandamál sem koma upp í tengslum við uppgjör lánasamninga. Hann vakti athygli á þeirri óvissu sem hér ríkir og sagði að mikilvægt væri að leggja áherslu á að eyða henni og komast að niðurstöðu í þeim fjölmörgu málum sem bíða dóms. Ragnar benti á að þær aðstæður og sú atburðarás sem hefur átt sér stað á Íslandi myndu alla jafna ekki viðgangast hjá öðrum ríkjum. Ef bankastjórar allra stærstu bankanna hefðu lagt það til hjá samkeppnisyfirvöldum að vegna mikillar réttaróvissu þyrftu þeir leyfi til að hafa samráð um það hvernig ætti að ná fram hagkvæmastri niðurstöðu fyrir lánveitendur gagnvart lántakendum. Hann taldi verulega ólíklegt að slíkt hefði verið samþykkt hjá þjóðum eins og Bandaríkjunum. Ragnar segir vegna þess að samkeppnisyfirvöld hafi heimilað lánastofnunum að hafa samráð sín á milli væri erfiðara að komast að niðurstöðu um það hvað lántakendur skulda lánastofnunum. Hann gagnrýndi seinagang úrvinnslu málanna og telur óboðlegt að lántakendur geti ekki fengið að vita með vissu hve mikið sé eftirstandandi af láni þeirra hjá lánastofnunum. Hann telur að fyrsta skrefið í átt að lausn sé að fella niður heimildina til samráðsins og leggja fyrir viðkomandi fjármálafyrirtæki að leysa málin hvert fyrir sig á sínum eigin forsendum. Hann tók það þó fram að hann teldi afar ólíklegt að slíkt stæði til.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri FA fór næstur í pontu og ræddi um réttarstöðu fyrirtækja og helstu álitamál. Hann gerði grein fyrir viðskiptaháttum banka almennt og áréttaði að fjármálafyrirtæki hafa sterka stöðu í samskiptum sínum við lántakendur og þá sérstaklega gagnvart smærri fyrirtækjum og einstaklingum. Erindi Almars má sjá að fulluhér.

Að lokum sagði Elías Pétursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Jarðmótunar frá sinni reynslusögu í baráttu sinni við fjármálafyrirtæki þegar fyrirtæki hans lenti í greiðsluerfiðleikum. Hann sagði fundargestum frá samskiptum sínum við fjármálafyrirtæki og lýsti því skrefi fyrir skref þeirri atburðarás sem átti sér stað frá fyrstu vanskilum þar til fyrirtækið fór í þrot.

Nýjar fréttir

Innskráning