Álagning ÁTVR verði lækkuð til að vinna á móti verðhækkunum á áfengi

20.11.2015

KassavínFélag atvinnurekenda leggur til við Alþingi að álagning Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins verði lækkuð um tvö prósentustig, til að vinna á móti verðhækkunum á áfengi sem leiða að óbreyttu af áformuðum breytingum á skattlagningu áfengra drykkja. Þrátt fyrir breytinguna yrði framlegð ÁTVR svipuð, miðað við sölutölur ársins 2014, og ríkið fengi sitt í áfengisgjöldum.

Tillagan er sett fram til að vinna á móti verðlagsáhrifum af breyttri skattlagningu á áfengi, sem á að taka gildi um áramót samkvæmt frumvarpi um forsendur fjárlaga. Virðisaukaskattur á áfengi verður þá lækkaður í 11%, en á móti verður áfengisgjaldið hækkað um því sem næst 20%. Þetta leiðir af sér að ýmsar ódýrari áfengistegundir hækka í verði, en dýrari tegundir lækka. Í raun þýðir breytingin að neytendur með minna á milli handanna, sem líklegir eru til að velja ódýrari tegundir, niðurgreiða áfengisskattana fyrir þá sem meira hafa og beina kaupum sínum í dýrara áfengi.

Ódýrt vín er dýrt miðað við önnur lönd
Undanfarin ár hafa áfengisgjöld hækkað gífurlega. Það þýðir að ódýrari áfengistegundir verða hlutfallslega dýrari en vín sem kosta meira í innkaupum, enda er áfengisgjaldið föst krónutala. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra viðurkenndi þetta á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga í fyrra, þar sem hugmyndir um að lækka virðisaukaskatt á áfengi og hækka enn áfengisgjaldið voru til umræðu. „[Í] dag er ódýrt vín tiltölulega dýrt miðað við í öðrum löndum vegna þess að áfengisgjaldið er föst krónutala og tekur ekki tillit til þess hversu dýr t.d. rauðvínsflaskan er og verður þannig til þess að dýrara vínið er tiltölulega ódýrt. Það þarf aðeins að skoða þau mál,“ sagði ráðherrann.

Þetta virðist ekki hafa verið skoðað betur en það að frumvarpið, sem ráðherrann hefur nú lagt fyrir Alþingi, leiðir til þess að þriggja lítra léttvínskassi eða „belja“ mun hækka í verði um allt að 300 krónur og lítraflaska af vodka um 400-500 krónur. Þetta kemur að sjálfsögðu við pyngju margra neytenda.

ÁTVR tekur til sín 300-400 milljónum meira
Í bréfi FA til formanns efnahags- og viðskiptanefndar þingsins er lagt til að álagningu ÁTVR verði breytt til að vinna á móti þessum verðlagsáhrifum. „Þótt ætlunin sé að tekjur ríkisins af virðisaukaskatti og áfengisgjaldi verði svipaðar eftir breytingu, benda útreikningar FA til að smásöluálagning Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins (ÁTVR) muni hækka um á bilinu 300 til 400 milljónir króna við breytinguna, enda leggst lögbundin prósenta ofan á hækkað áfengisgjald,“ segir í bréfi FA.

Rifjað er upp að í árslok 2008 var fest í lög að álagning ÁTVR á léttvín og bjór skuli vera 18%, en 12% á sterkt áfengi. Þetta var gífurleg hækkun, en áður hafði smásöluálagningin verið 13% á bjór og léttvín og 6,85% á sterka drykki. „Að mati FA er ótækt að breyting, sem átti ekki að breyta tekjum ríkisins af áfengissölu, leiði til þess að 300-400 milljónir renni úr vösum neytenda inn í rekstur ÁTVR,“ segir í bréfi Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA.  Gerð er sú tillaga að álagning ÁTVR á bjór og léttvín verði 16% í stað 18% nú, en 10% á sterka drykki í stað 12% nú.

Samkvæmt útreikningum félagsins þýddi þetta að álagning ÁTVR yrði í krónum talið sú sama og verið hefur, miðað við sölutölur ársins 2014, og geta fyrirtækisins til að standa undir arðgreiðslum í ríkissjóð því óbreytt.

Myndi draga úr verðhækkuninni
Þessi breyting myndi milda verðhækkun algengra söluvara; algeng tegund af léttvíni í kassa myndi hækka um 132 krónur í stað 229 og algeng vodkategund í lítraflösku myndi hækka um 274 krónur í stað 414. Ríkið fengi sitt í áfengisgjöldum og virðisaukaskatti og framlegð ÁTVR yrði óbreytt. Áhrif enn einnar verðhækkunar á áfengi yrðu hins vegar milduð gagnvart neytendum.

FA hvetur enn fremur til þess að stjórnvöld íhugi að lækka áfengisgjald, en með fyrirhuguðum breytingum verður áfengisskatturinn sá hæsti í heimi. FA bendir meðal annars á þær staðfestu afleiðingar hækkana á ódýrari tegundum áfengis að heimabrugg og smygl færist í vöxt. Ennfremur er líklegt að hækkun gjalda á sterkt áfengi hafi þau áhrif að í veitingageiranum verði meira um sölu á ólöglegu áfengi, en skattabreytingin er einmitt gerð til að afstýra skattaundanskotum í veitingabransanum.

Bréf FA til formanns efnahags- og viðskiptanefndar

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning