Algengast að stytta einn vinnudag í viku

24.02.2020
Smelltu á myndina til að stækka hana.

Algengasta útfærslan á styttingu vinnuvikunnar samkvæmt kjarasamningi Félags atvinnurekenda og VR er að stytta einn vinnudag í viku um 45 mínútur, samkvæmt könnun FA meðal félagsmanna. Af fyrirtækjum sem svöruðu spurningum um styttingu vinnuvikunnar hafa 43% tekið þann kostinn í samráði við starfsfólk. Ákvæði samningsins um styttingu vinnutíma tóku gildi um áramót.

Í 17% fyrirtækjanna er sú leið farin að stytta einn dag í mánuði um 3 klukkustundir og 15 mínútur, en 14% taka þann kost að stytta hvern dag um níu mínútur. Hjá 2% er farin sú leið að safna styttingunni upp innan ársins í heila frídaga.

Um fjórðungur svarenda segir að aðrar leiðir séu farnar. Í þeim hópi eru m.a. fyrirtæki sem voru þegar búin að stytta vinnuvikuna þannig að hún er færri stundir en kjarasamningurinn frá síðastliðnu vori kveður á um.

Í öðrum fyrirtækjum er útfærslan mismunandi eftir deildum og hjá sumum er sveigjanleiki í viðveru aukinn þannig að heildarvinnutíminn styttist í samræmi við samninginn, án þess þó að styttingin sé á fyrirfram ákveðnum dögum.

Smelltu á myndina til að stækka hana

Meiri trú á að breytingin auki starfsánægju en framleiðni
Stjórnendur aðildarfyrirtækja FA eru almennt ekki trúaðir á að vinnutímastyttingin auki framleiðni í fyrirtækjum þeirra, en hafa frekar trú á að breytingin sem tók gildi um áramót auki ánægju starfsmanna.

Þannig er ríflega helmingur svarenda í könnuninni ósammála eða mjög ósammála þeirri fullyrðingu að styttingin auki framleiðni og innan við 10% svarenda eru sammála eða mjög sammála.

Fullyrðingunni „ég tel að stytting vinnuvikunnar muni auka ánægju starfsmanna“ segist meirihluti stjórnenda hins vegar sammála, en um fjórðungur hefur litla eða enga trú á að styttingin muni auka starfsánægju í fyrirtækinu.

Könnun FA var gerð dagana 16.-23. janúar sl. Könnunin var send í tölvupósti til 157 fyrirtækja með beina félagsaðild og svöruðu 54 eða 34,4%. Undanfarin ár hefur svarhlutfallið í félagakönnunum FA legið á bilinu 31-64%. Ekki er hægt að rekja svörin til einstakra svarenda eða fyrirtækja.

Smelltu á myndina til að stækka hana.

Nýjar fréttir

Innskráning