Alls voru veitt 1.159 stuðningslán – FA hvetur stjórnvöld til að lengja endurgreiðslutíma

31.07.2023

Stóru viðskiptabankarnir þrír veittu samtals 1.159 stuðningslán til fyrirtækja sem urðu fyrir tekjufalli í heimsfaraldri kórónuveirunnar, samkvæmt upplýsingum sem Félag atvinnurekenda hefur aflað hjá bönkunum. 248 lántakendur báðu í upphafi ársins um viðbótarfrest til að byrja að greiða af lánunum. Að mati FA eru mörg lítil og meðalstór fyrirtæki, sem fengu stuðningslán, enn ekki í aðstöðu til að greiða lánin niður á tólf mánuðum og hefur félagið sent fjármálaráðuneytinu erindi, þar sem hvatt er til að fjármálastofnunum verði heimilað að dreifa endurgreiðslunum á lengri tíma.

Fjöldi stuðningslána skiptist á bankana eins og sjá má í töflunni hér að neðan. Af 1159 lánum voru 979 með 100% ríkisábyrgð en 180 með 85% ríkisábyrgð. FA og fleiri samtök hafa hvatt til þess að fyrirtækjum með stuðningslán, sem eru upp til hópa lítil og meðalstór, verði gefinn lengri tími til að greiða þau til baka en upphaflega var áformað, enda dróst faraldurinn á langinn með tilheyrandi áhrifum á tekjur margra fyrirtækja. Fjármálaráðuneytið breytti í tvígang reglugerð um lánin og var í mars 2021 gefinn tólf mánaða viðbótarfrestur til að byrja að greiða af lánunum og í upphafi þessa árs sex mánuðir til viðbótar. Eins og sjá má í töflunni þáðu lántakendur 248 stuðningslána viðbótarfrestinn í byrjun árs, en það eru rúmlega 21% þeirra sem fengu stuðningslán.

Þá hafa 373 stuðningslán verið greidd upp, en inni í þeim tölum eru lán sem greidd hafa verið úr ríkissjóði vegna greiðslufalls lántakandans. Þannig voru til dæmis 18 lán hjá Íslandsbanka greidd úr ríkissjóði.

Lengri endurgreiðslutími gæti firrt ríkissjóð tjóni
FA sendi fjármálaráðuneytinu erindi fyrr í mánuðinum og ítrekaði hvatningu sína um að fyrirtækjum sem eiga í erfiðleikum með að hefja endurgreiðslu verði gefinn lengri tími. Í erindinu er bent á að ríkissjóður hafi þegar orðið fyrir talsverðu tjóni vegna þess að fyrirtæki hafa farið í þrot og ekki getað staðið skil á endurgreiðslum stuðningslána.

„Félagið telur ástæðu til að beina því enn á ný til ráðuneytisins að það heimili lánastofnunum að lengja endurgreiðslutíma stuðningslána enn frekar til að koma til móts við þessi fyrirtæki. Að mati félagsins myndi það í einhverjum tilvikum stuðla að því að firra ríkissjóð frekara tjóni vegna greiðslufalls, vegna þess að ýmis fyrirtæki, sem ekki ráða við að endurgreiða lánin á næstu tólf mánuðum, myndu vel ráða við greiðslur sem dreift væri á t.d. 36 mánuði. FA vill aftur minna á að fjármálastofnanir þekkja viðskiptavini sína vel og eru í stakk búnar að meta endurgreiðslugetu og þanþol fyrirtækja,“ segir í erindi FA.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning