Almennt um samningarétt

Samningaréttur fjallar almennt um þær reglur sem gilda um samninga og aðra löggerninga á sviði fjármunaréttar. Mikilvægt er að hafa ýmis grundvallaratriði á hreinu þegar tekist er á við álitaefni sem tengjast samningum. Hér að neðan verður tæpt á nokkrum atriðum sem hafa ber í huga.

Skuldbingar samninga

Í íslenskum rétti er meginreglan sú að samninga ber að halda (pacta sunt servanda). Þetta þýðir að þegar gerður er gildur samningur þá er hægt að leita til yfirvalda til að fá efndir samnings. Þessa reglu má rekja allt til Jónsbókar og hefur verið grundvallarregla í vestrænum samfélögum í langan tíma. Ekki er að finna lagareglu sem tiltekur þessa reglu en þó er hægt að sjá vísbendingar um tilvist hennar í hinum ýmum lögum.

Undantekningar frá meginreglunni

Heimild til að falla frá samningi, t.d. 35. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000 og 8. gr. laga um húsgöngu – og fjarsölu nr. 96/1992.

Ógilding samnings, t.d. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936

Samningsfrelsi

Meginreglan um samningsfrelsi felur það í sér að menn mega ráða því hvern þeir semja við, hvert efni samningsins er og hvort þeir yfirhöfuð ætli sér að semja. Almennt er því ekki hægt að skylda menn til að semja ef þeir vilja það ekki. Þetta er mikilvæg regla sem hefur þó hinar ýmsar takmarkanir.

Undantekningar frá meginreglunni

Takmörkun á rétti aðila til að ráða efni samningsins, sbr. 3. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup og 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Takmörkun á rétti aðila til að ráða því við hvern hann semur, sbr. forkaupsréttarákvæði og 22. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Takmörkun á rétti aðila til að ráða því hvort hann semji, sbr. reglur um lögræði og 55. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Formfrelsi

Almennt hafa menn val um það hvort þeir gera munnlega samninga eða skriflega, þ.e. munnlegir samningar teljast vera jafngildir þeim skriflegu. Það er hinsvegar þannig að sá sem heldur því fram að samningur hafi verið gerður og hvers efnis hann er ber sönnunarbyrðina fyrir því. Af þeim sökum getur stundum verið bagalegt að reiða sig á munnlega samninga.

Undantekningar frá meginreglunni

Samningur um kaup á fasteignum verður að vera skriflegur og innihald ákveðin efnisatriði, sbr. 7. gr. fasteignakaupalaga nr. 40/2002

Húsaleigusamningar eiga að vera skriflegir, sbr. 4. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994

Innskráning