Alþingi Í̶s̶l̶e̶n̶d̶i̶n̶g̶a̶ embættismanna

05.10.2022

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptamogganum 5. október 2022.

This image has an empty alt attribute; its file name is IMG_7947-1024x768.jpeg

Of mörg dæmi eru um að Alþingi breyti lögum vegna ábendinga frá embættismönnum, sem telja að lagabreytingar myndu auðvelda þeim lífið. Slíkar tillögur renna mun þýðar í gegnum þingið en tillögur frá borgurum, fyrirtækjum eða samtökum þeirra um lagabreytingar sem myndu létta borgurunum lífið eða auðvelda viðskipti og efla samkeppni.   

Tökum dæmi. Vorið 2017 flutti fjármálaráðherra frumvarp sem innihélt tillögu frá tollstjóra um að breyta saknæmisskilyrðum í 172. grein tollalaga. Lagt var til að í stað þess að refsa mætti innflytjendum vöru fyrir ranga upplýsingagjöf í tollskýrslu vegna ásetnings eða stórfellds gáleysis, mætti refsa fólki fyrir að gefa rangar upplýsingar af einföldu gáleysi. Þetta þýðir á mannamáli að tollstjóraembættið vildi að hægt yrði að refsa fólki fyrir misgáning eða mistök. Rökin voru að það væri svo erfitt að sýna fram á ásetning eða stórfellt gáleysi þegar rangar upplýsingar væru veittar í tollskýrslum.

Félag atvinnurekenda andmælti þessari tillögu harðlega og benti á að tollalöggjöfin væri flókin og ógegnsæ og innflytjendur væru oft í miklum vandræðum með að ráða fram úr henni. Dæmi væru um að jafnvel að fenginni ráðgjöf starfsmanna tollstjóra varðandi tiltekna tollframkvæmd yrði það niðurstaðan löngu síðar að vara hefði verið rangt tollflokkuð og innflytjandinn þá sakaður um ranga upplýsingagjöf. FA benti á að leiðin til að tryggja að réttar upplýsingar væru veittar væri frekar sú að tollayfirvöld legðu sig betur fram um leiðbeiningu og ráðgjöf við framkvæmd tollalaganna.

Alþingi skeytti ekki um þessi andmæli og voru hagsmunasamtök innflutningsfyrirtækja ekki einu sinni boðuð á nefndarfund til að ræða málið, heldur rann það umræðulítið í gegnum þingið. Afleiðingin er að vegið er freklega að að hagsmunum og réttaröryggi fyrirtækja í innflutningi og starfsmanna þeirra, sem geta nú sætt refsiábyrgð þótt enginn vilji hafi staðið til þess af hálfu nokkurs manns að komast hjá greiðslu aðflutningsgjalda.

Tökum raunverulegt dæmi: Fyrirtæki í FA flytur öðru hvoru inn snyrtivörur. Vegna mistaka erlends sendanda vöru fylgdi rangur reikningur gögnum til tollmiðlara og staðfesti starfsmaður fyrirtækisins gögnin þar sem hann vissi ekki betur. Afleiðingar þessa fyrir starfsmanninn voru sekt og skráning á sakaskrá. Þarna skortir augljóslega allt meðalhóf.

Enginn er óskeikull og það gengur gegn grundvallargildum íslenzks samfélags að refsa fólki fyrir misgáning. Engu að síður hefur efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis ekki sinnt ítrekuðum erindum FA og fleiri um að vinda ofan af lagabreytingunni. Embættismenn framkvæmdavaldsins eru nefnilega alltaf spurðir álits og þeir segja nei. Þar við situr.

Ríkisstofnanir eru ekki óskeikular heldur og ófá dæmi um að starfsmenn ríkisskattstjóra geri mistök við tollflokkun. Tökum dæmi af félagsmanni FA, sem var sakaður um að hafa flutt inn vöru á röngu tollskrárnúmeri. Með ákvörðun Skattsins var fyrirtækinu gert að greiða 290 milljónir króna. Að auki neyddist það til að hækka verðið á vörunni um tugi prósenta. Rúmlega mánuði síðar viðurkenndi Skatturinn að hafa haft rangt fyrir sér og þurfti að endurgreiða kröfuna með vöxtum. Afleiðingarnar fyrir viðkomandi ríkisstarfsmenn voru engar. Enginn komst á sakaskrá.

Í öðru máli, sem Ríkisendurskoðun fjallaði um fyrr á árinu, höfðu starfsmenn tollafgreiðsludeildar Skattsins ráðlagt fyrirtæki um tollflokkun tiltekinnar vöru. Starfsmenn annarrar deildar hjá embættinu komust að annarri niðurstöðu, með þeim afleiðingum að fyrirtækið fékk tuga milljóna króna bakreikning. Afleiðingarnar fyrir ríkisstarfsmennina voru engar.

Til að bíta höfuðið af skömminni samþykkti Alþingi árið 2019 lagabreytingu – ættaða frá ríkisskattstjóra – sem þrengir skilyrði fyrir því að ríkið greiði dráttarvexti af ofteknum sköttum og gjöldum. M.ö.o. er orðið ódýrara fyrir ríkið þegar starfsmenn þess gera mistök eins og í dæmunum að framan.

Erfitt er að verjast þeirri hugsun að þingmenn hafi látið embættismenn framkvæmdavaldsins misnota sig í þessum málum í stað þess að taka sjálfstæða afstöðu í þágu borgaranna og atvinnulífsins í landinu.



Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning