Alþjóðatollastofnunin telur Ísland hafa breytt tollflokkun pitsuosts ranglega

19.04.2023

Alþjóðatollastofnunin, WCO, komst í síðasta mánuði að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði tollflokkað pitsuost blandaðan með jurtaolíu ranglega. Málið varðar mikla hagsmuni innflutningsfyrirtækja en eitt þeirra, Danól, dótturfyrirtæki Ölgerðarinnar og félagsmaður í FA, fékk bakreikning upp á talsvert á þriðja hundrað milljóna króna vegna þess að Skatturinn hélt því fram að fyrirtækið hefði flutt inn pitsuost á röngu tollnúmeri. Samkvæmt niðurstöðu WCO var varan hins vegar rétt tollflokkuð. Málið var rætt á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun.

Málið á sér forsögu sem hófst 2020, en þá bentu hagsmunaaðilar í landbúnaði stjórnvöldum á meint misræmi í hagtölum Evrópusambandsins um útflutning til Íslands og tölum Hagstofunnar um innflutning frá ESB. Var því meðal annars haldið fram að innflytjendur flyttu inn búvörur á röngum tollskrárnúmerum til að komast hjá tollum og hafðar uppi ásakanir um stórfellt tollasvindl.

Tollflokkun breytt vegna þrýstings hagsmunaaðila – heil deild Skattsins segir sig frá málinu
Bændasamtök Íslands og Mjólkursamsalan sóttu fast gagnvart stjórnvöldum að pitsuostur með viðbættri jurtaolíu yrði flokkaður í 4. kafla tollskrárinnar, sem ber háa tolla, í stað þess að flokkast í 21. kafla, sem ekki ber tolla. Tollflokkunarsérfræðingar Skattsins voru ósammála því að vöruna ætti að flokka með þessum hætti og endaði það með því að öll tollafgreiðsludeild embættisins sagði sig frá málinu, þar sem starfsmenn hennar töldu að fjármálaráðuneytið væri að reyna að þvinga þá til að „fremja ólög“ eins og einn þeirra sagði síðar eiðsvarinn fyrir Héraðsdómi í máli þar sem látið var reyna á tollflokkunina.

Fjármálaráðuneytið og Skatturinn beittu sér fyrir því að varan yrði endurtollflokkuð og sett í 4. kafla tollskrárinnar en ráðuneytið kom „þeim skilaboðum áleiðis“ til Skattsins eins og það var orðað í svörum ráðuneytisins til FA. Helsta gagnið sem byggt var á við þá ákvörðun var tölvupóstur frá starfsmanni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem taldi að flokka ætti pitsuostinn í 4. kafla. Sá póstur var sendur 4. júní 2020 og hefur fjármálaráðuneytið ítrekað staðfest við FA að hann hafi undirbyggt þá afstöðu þess að breyta ætti tollflokkun á vörunni. Tólf dögum síðar sendi sami embættismaður ESB nýjan póst og dró þá afstöðu sína til baka, sagðist ekki hafa haft rétta innihaldslýsingu vörunnar. Þá hafði ákvörðun hins vegar verið tekin um að breyta tollframkvæmdinni og virðast nýjar upplýsingar engu hafa breytt um þá afstöðu stjórnvalda. Skatturinn hefur staðfest við Félag atvinnurekenda, sem aðstoðaði Danól í málinu, að aðrir aðilar í ríkiskerfinu hafi ekki verið látnir vita af þeim pósti og varð FA fyrst kunnugt um tilvist þessa lykilgagns í málinu haustið 2022. Hvorugur pósturinn var þó formleg afstaða ESB, eins og kom raunar skýrt fram í þeim báðum.

Lykilgögnum í málinu leynt
Danól lét reyna á tollflokkunina fyrir dómstólum en tapaði málinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í júlí 2021. Málinu var áfrýjað til Landsréttar. Í október sama ár bárust stjórnvöldum, þar á meðal Skattinum, fjármálaráðuneytinu og ríkislögmanni, sem rak málið fyrir dómi, formleg bréf frá bæði Evrópusambandinu og Alþjóðatollastofnuninni, þess efnis að alls ekki ætti að flokka pitsaostinn í 4. kafla tollskrár heldur fremur þann 21. eða 19.

Þessi gögn hafði íslenska ríkið því undir höndum þegar málsmeðferð fór fram í Landsrétti í málinu enda sendi Skatturinn ýmsum ráðuneytum og stofnunum, þ.m.t. fjármálaráðuneytinu og ríkislögmanni, sérstakan póst í nóvember 2021 þar sem upplýst var um þessa afstöðu ESB og WCO. Ríkið lagði gögnin hins vegar ekki fram í réttarhaldinu og staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms, um að flokka bæri ostinn í 4. kafla tollskrárinnar, í febrúar í fyrra. Danól og Félag atvinnurekenda vissu ekki af þessum bréfum fyrr en vitnað var til þeirra í skýrslu Ríkisendurskoðunar um tollframkvæmd í landbúnaði, sem kom út í febrúar í fyrra, eftir að dómur féll. Gögnin bárust Félagi atvinnurekenda loks haustið 2022 þrátt fyrir að fyrst hafi verið óskað eftir þeim í mars sama ár, áður en Hæstiréttur tók ákvörðun um höfnun áfrýjunarleyfis.

Að mati FA hefur íslenska ríkið gert sig sekt um að leyna gögnum, bæði fyrir fyrirtækinu sem í hlut á – en það á rétt á öllum gögnum málsins samkvæmt stjórnsýslulögum – og fyrir dómstólum. Einnig virðist stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, sem tók mál tengd tollflokkun á búvörum til meðferðar árið 2020 og birti ýmis gögn þess á vef þingsins, hafa verið leynd tölvupóstinum þar sem fyrra álit starfsmanns Evrópusambandsins var dregið til baka. Þá var hann ekki á meðal þeirra gagna sem send voru Ríkisendurskoðun vegna athugunar hennar á málinu og útskýrir það hvers vegna Ríkisendurskoðun velti því fyrir sér í skýrslu sinni hvers vegna tölvupósturinn frá 4. júní 2020 væri ekki í samræmi við hina eiginlegu tollframkvæmd ESB.

Evrópusambandið bar ágreining sinn við Ísland um tollflokkunina undir Alþjóðatollastofnunina og komst tollflokkunarfundur stofnunarinnar, sem haldinn var síðari hluta marsmánaðar, að þeirri niðurstöðu að varan ætti að flokkast í 21. kafla tollskrár – eins og hún var flokkuð áður en hagsmunaaðilar í landbúnaði beittu stjórnvöld þrýstingi til að breyta henni.

Forsvarsmenn FA gerðu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd grein fyrir málinu á fundi hennar í morgun. Enn liggur ekki fyrir hvernig íslenska ríkið hyggst bregðast við niðurstöðu Alþjóðatollastofnunarinnar eða hvort fyrirtækið fær tjón sitt bætt. Þá er óleyst úr þeirri stöðu að fyrir liggi dómur íslenskra dómstóla, byggður á ófullnægjandi gögnum, sem gengur þvert á alþjóðlega tollflokkunarkerfið og skuldbindingar Íslands að þjóðarétti.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning