Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 26. janúar 2017.
Nýr fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, benti réttilega á það í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra að eitt af því sem stjórnmálamenn gætu gert til að bæta lífskjör í landinu væri að auðvelda innflutning á landbúnaðarvörum. Ráðherrann sagði að tollasamningurinn við Evrópusambandið, sem vonandi tekur gildi á miðju ári, myndi stuðla að því að innflutningur á búvörum tvöfaldaðist.
Það er sennilega bjartsýnt mat, en rétt að tollasamningurinn ætti að geta tryggt neytendum meira val og lægra verð á búvörum með heilbrigðri samkeppni. Til að svo megi verða þarf þó að breyta þeirri gömlu stefnu að gera innflutning eins erfiðan og hægt er.
Eftir að utanríkis- og landbúnaðarráðherra í síðustu ríkisstjórn gerðu samninginn við ESB, reis mikil mótmælaalda í landbúnaðinum, sem kvartaði sáran undan auknu viðskiptafrelsi. Framsóknarráðherrunum var brugðið og landbúnaðarráðherrann skipaði starfshóp fulltrúa ríkisins, landbúnaðarins og innlends iðnaðar, til að gera tillögur um „viðbrögð“ við tollasamningnum. Þær gengu flestar út á að leggja nýja steina í götu frjálsra viðskipta með búvörur.
Ein tillagnanna var að bjóða oftar upp tollkvótana, sem innflutningsfyrirtækjum er úthlutað samkvæmt samningum við ESB og WTO. Félag atvinnurekenda benti á að þetta myndi hækka verð til neytenda – enda var það tilgangurinn. Samkvæmt úttekt FA á niðurstöðum fyrstu útboðanna gekk þetta eftir og hundruð króna bætast við kílóverð ýmissa innfluttra búvara. Þessu fyrirkomulagi þarf að breyta á ný, eigi ESB-samningurinn að skila neytendum raunverulegum hagsbótum.
Það þarf líka að endurskoða það fyrirkomulag að bjóða tollkvótana upp. Fjármálaráðherrann virðist átta sig á því; hann sagði í ræðunni að dýrir tollkvótar mættu ekki verða til að hækka verð til neytenda óeðlilega mikið.
Það er óneitanlega merkilegt nýmæli og fagnaðarefni ef ráðherrar hætta að vinna gegn alþjóðasamningum sem Ísland hefur gert um fríverzlun með búvörur. Þá fær landbúnaðurinn alvöru samkeppni og neytendur alvöru val.