Gagnrýni á fjölgun og sérréttindi ríkisstarfsmanna

Á aðalfundi FA í febrúar var kynnt skýrslan „Er ekki bara best að vinna hjá ríkinu?“ sem Intellecon vann fyrir félagið. Skýrslan vakti mikla athygli og fékk góða umfjöllun í fjölmiðlum. Á meðal niðurstaðna var að starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga fjölgaði um 11.400 á árunum 2015 til 2021 sé litið til talna vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar. Það er rúmlega 20% fjölgun, en á sama tíma fjölgaði fólki á almennum vinnumarkaði um 4.200, sem var 3% aukning.

Önnur meginniðurstaða skýrslunnar er að laun hjá hinu opinbera eru orðin samkeppnisfær við almenna markaðinn. Greidd laun í opinberri stjórnsýslu eru almennt hærri en í flestum öðrum starfsgreinum. Að þessu gefnu má ætla að eftirsóknara sé en áður að vinna hjá hinu opinbera.

FA gagnrýndi þessa fjölgun, og jafnframt að ríkisstarfsmenn nytu enn sérréttinda á borð við mun ríkari uppsagnarvernd en starfsfólk á almenna markaðnum, í ljósi þess að launin væru orðin sambærileg, lífeyrisréttur samræmdur til framtíðar og vinnutíminn mun þægilegri en hjá fólki á almenna markaðnum.

FA benti meðal annars á það í umsögn sinni um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að nauðsynlegt væri að breyta lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna til að afnema sérréttindi starfsmanna ríkisins og ná fram nauðsynlegri hagræðingu í ríkisrekstrinum.

Fréttir um málefnið

Innskráning