Könnun FA: 90% félagsmanna ánægðir með starf og baráttu félagsins

Smelltu á myndina til að stækka hana

Yfirgnæfandi ánægja er meðal félagsmanna FA með alla helstu þjónustuþætti félagsins, samkvæmt árlegri þjónustukönnun sem gerð er í aðdraganda aðalfundar. 90% félagsmanna segjast ánægðir eða mjög ánægðir með starf félagsins í heild. Mest notuðu þjónustuþættir FA voru lögfræðiþjónustan og upplýsingapóstar um margvísleg málefni, en í báðum tilvikum var ánægja með þjónustuna yfir 85%.

Svipaða sögu er að segja af félagsfundum, örnámskeiðum og aðstoð við hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum, þar sögðust á milli 80 og 90% svarenda ánægðir eða mjög ánægðir með þjónustuna. Minnst var ánægjan með Starfsmenntasjóð verslunarinnar, sem FA og VR reka í sameiningu, en þar lýsti 61% félagsmanna ánægju með þjónustuna.

Smelltu á myndina til að stækka hana

Spurt var hvort FA væri sýnilegt í baráttu sinni fyrir félagsmenn og sögðust 88% félagsmanna sammála eða mjög sammála slíkri fullyrðingu. Þá voru 85% á því að ímynd félagsins væri jákvæð og drjúgur meirihluti, eða 65%, var sammála eða mjög sammála þeirri fullyrðingu að félagsgjöld í FA væru sanngjörn miðað við ávinning fyrirtækisins. Í heildina sögðust 90% ánægð eða mjög ánægð með starf félagsins.

Spurt var um afstöðu til frammistöðu FA í ýmsum baráttumálum, eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Tæplega 90% félagsmanna sögðust ánægðir með baráttu félagsins fyrir því að stöðva fjölgun ríkisstarfsmanna og breyta starfsmannalögum, að komið verði á heilbrigðri samkeppni í sjóflutningum og að regluverk verði einfaldað til að lækka kostnað fyrirtækja. Um og yfir 80% lýstu ánægju með baráttu félagsins fyrir að ríkið sé ekki í samkeppni við einkafyrirtæki, að tryggingagjald og aðrir fyrirtækjaskattar verði lækkaðir og að fasteignaskattar fyrirtækja lækki. Um þrír fjórðuhlutar félagsmanna voru ánægðir með baráttuna fyrir lækkun tolla á búvörum og að lagaumhverfi áfengisverslunar verði endurskoðað til frjálsræðisáttar. Þá sögðust 68% ánægðir eða mjög ánægðir með baráttu FA fyrir lækkun áfengisskatta.

Smelltu á myndina til að stækka hana

Könnunin var framkvæmd á netinu dagana 26. janúar til 2. febrúar. Svarhlutfall var 41%. Svörin eru ekki rekjanleg til einstakra svarenda eða fyrirtækja.

Fréttir um málefnið

Innskráning