Könnun FA: Félagsmenn ánægðir með starfið og þjónustuna

Almenn ánægja er meðal félagsmanna í FA með starf og þjónustu félagsins undanfarið ár, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem gerð var á meðal félagsmanna dagana 24.-31. janúar síðastliðinn. 80% félagsmanna segjast ánægðir eða mjög ánægðir með starf félagsins í heild, en 2% lýstu óánægju.

Smelltu á myndina til að stækka hana.

Lögfræðiþjónustan mikið notuð og viðskiptavinirnir ánægðir
Spurt var út í ýmsa þætti þjónustu FA og um þau baráttumál sem félagið hefur sett á oddinn undanfarna 12 mánuði. Eins og mörg fyrri ár er lögfræðiþjónusta FA sá þjónustuþáttur sem mest ánægja er með. Tveir þriðjuhlutar félagsmanna sögðust nýta sér þjónustuna og eru samtals 84% ánægðir eða mjög ánægðir með hana. Mest notaða þjónustan er upplýsingapóstar til félagsmanna, t.d. vegna heimsfaraldursins, viðvaranir vegna netsvika og fleira slíkt. Þrír fjórðuhlutar félagsmanna nota þjónustuna og af þeim segjast 75% ánægðir eða mjög ánægðir. Á árinu tók FA upp nýjung, sem eru örnámskeið á netinu, sem 50% svarenda höfðu nýtt sér. Af þeim voru 72% ánægðir eða mjög ánægðir.

Spurt var um frammistöðu FA í ýmsum baráttumálum. Smelltu á myndina til að stækka hana.

Mest ánægja með baráttu fyrir lækkun fyrirtækjaskatta og einföldun regluverks
Spurt var út í ýmis baráttumál FA. Mesta ánægjan var með frammistöðu félagsins í baráttu fyrir lækkun tryggingagjalds og annarra fyrirtækjaskatta, en 89% félagsmanna eru ánægðir eða mjög ánægðir með þá baráttu. 78% lýstu ánægju með baráttu félagsins fyrir því að einfalda regluverk til að lækka kostnað fyrirtækja og 76% með málflutning um að ríkið sé ekki í samkeppni við einkafyrirtæki. 72% sögðust ánægð eða mjög ánægð með baráttu félagsins fyrir lækkun fasteignaskatta á fyrirtæki. Í öllum tilvikum er drjúgur meirihluti félagsmanna ánægður eða mjög ánægður með baráttuna fyrir helstu stefnumálum félagsins. 79% sögðust sammála eða mjög sammála þeirri fullyrðingu að félagið væri sýnilegt í baráttu sinni fyrir félagsmenn.

Smelltu á myndina til að stækka hana.

82% telja ímynd FA jákvæða
Á heildina litið eru félagsmenn ánægðir með þjónustu félagsins og hvað þeir fá fyrir félagsgjöldin sín. Þannig sögðust 63% sammála eða mjög sammála þeirri fullyrðingu að félagsgjöld í FA væru sanngjörn miðað við ávinning fyrirtækisins af aðild, en 6% sögðust ósammála eða mjög ósammála. 82% félagsmanna sögðust sammála eða mjög sammála því að ímynd félagsins væri jákvæð. Þá sögðust 80% ánægð eða mjög ánægð með starf félagsins í heild.

Í könnuninni fengust svör frá 57 félagsmönnum af 164 með beina félagsaðild. Það er 35% svarhlutfall, sem er svipað og undanfarin ár.

Fréttir um málefnið

Innskráning