Áttu rétt á endurgreiðslu frá tollinum?

14.05.2013

Félag atvinnurekenda hefur unnið mikið með fyrirtækjum í tengslum við tollflokkun sem og samskipti við tollyfirvöld. Eitt af þeim verkefnum hefur verið að aðstoða fyrirtæki við að endurheimta of greidd aðflutningsgjöld. Er þetta gríðarlega mikilvægt úrræði fyrir fyrirtæki og einstaklinga enda ljóst að miklir hagsmunir geta verið í húfi þar sem sumar vörur bera mjög há aðflutningsgjöld.

 

Meginregla íslensks réttar er að sá sem greitt hefur umfram skyldu á rétt til endurgreiðslu. Þessi regla gildir jöfnum höndum um greiðslur til einkaaðila og opinberra aðila. Mikilvægt er að hafa þetta í huga þegar kemur að greiðslu aðflutningsgjalda.

 

Innflytjandi vöru ber að meginstefnu ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda, þ.e. tolla og annarra gjalda sem lögð eru á vöru við innflutning. Aðflutningsgjöld eru almennt lögð á vöru með hliðsjón af því tollskrárnúmeri sem hún flokkast undir. Staðan er hins vegar sú að tollflokkun er flókin og oft eru vörur flokkaðar í röng tollskrárnúmer. Afleiðingar þess geta verið tvenns konar. Annað hvort hafa verið greidd of lág aðflutningsgjöld af vörunni eða of há.

 

Þegar greidd hafa verið of lág aðflutningsgjöld getur tollstjóri krafið viðkomandi fyrirtæki um þau gjöld, 6 ár aftur í tímann. Þetta grundvallast á ákvæði tollalaga og er oft mjög íþyngjandi fyrir fyrirtæki sem hafa í góðri trú selt vöruna með álagningu sem tekur mið af þeim gjöldum sem greidd hafa verið.

 

Hvað gerist hins vegar þegar greidd eru of há gjöld? Það er einfalt. Innflytjandinn hefur eignast kröfu á hendur tollstjóranum og á rétt til endurgreiðslu. Gilda þá almennar reglur kröfuréttar um slíkar endurgreiðslukröfur.

 

Nýlegt dæmi sem gefur tilefni til skoðunar er tilkynning tollstjóra á heimasíðu sinni frá 2. apríl 2013. Sjá hér. Sú tilkynning lýtur að stefnubreytingu tollstjóra við flokkun á skjám sem hafa m.a. HDMI tengi og hátalara. Samkvæmt henni þá eru þessir skjáir framvegis flokkaðir í tollskrárnúmer 8528.5100, sem ber engin vörugjöld og enga tolla. Áður hafði tollstjóri tollflokkað umrædda skjái í tollskrárnúmer 8528.5900 sem ber 7,50% almennan toll og 25% vörugjöld. Þessi stefnubreyting tollstjóra er ekkert annað en staðfesting á því að þessir skjáir hafi verið rangt tollflokkaðir í tiltekinn tíma og því greidd af þeim of há aðflutningsgjöld.

 

Félag atvinnurekenda telur því mikilvægt að fyrirtæki sem hafa flutt inn skjái skoði sérstaklega hvort þeir hafi ofgreitt aðflutningsgjöld til tollstjóra og krefjist þá þegar endurgreiðslu þeirra.

 

Félag atvinnurekenda hvetur einnig fyrirtæki til að skoða sérstaklega hvort þau eigi almennt rétt til endurgreiðslu aðflutningsgjalda og leita þá réttar síns óhikað.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning