Atvinnurekendur eiga bótarétt ef starfsmenn hlaupast úr vinnu

24.09.2020
Lög, kjarasamningar og ráðningarsamningar kveða á um gagnkvæmar skyldur atvinnurekenda og launþega.

Ef starfsmaður hleypst úr vinnu án þess að vinna umsaminn uppsagnarfrest er hann bótaskyldur gagnvart atvinnurekandanum, sem getur haldið eftir launagreiðslum. FA aðstoðar félagsmenn sína í slíkum tilvikum og öðrum erfiðum starfsmannamálum. Þetta kom fram í viðtali við Ólaf Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun, en hann var þar spurður út í viðtal í sama þætti í gær við Kristján Berg, eiganda Fiskikóngsins. Hægt er að hlusta á viðtalið við Ólaf í spilaranum hér að notað.

Í viðtalinu við Kristján Berg sagði hann frá því sem hann upplifði sem úrræðaleysi atvinnurekenda þegar starfsmenn ganga fyrirvaralaust á dyr. Tveir starfsmenn hans tilkynntu uppsögn með SMS-skilaboðum og neita að vinna uppsagnarfrest sinn.

Gagnkvæm réttindi og skyldur
Ólafur sagði að það væri rétt að í opinberri umræðu hefði oft verið einblínt á tilvik, þar sem atvinnurekendur uppfylla ekki skyldur sínar gagnvart starfsmönnum, en minna hefði verið rætt um það þegar starfsmenn uppfylla ekki skyldur sínar gagnvart atvinnurekandanum. Ólafur benti á að í gildi væru lög, kjarasamningar og oftast ráðningarsamningar um ráðningarsamband atvinnurekanda og starfsmanns og eðli málsins samkvæmt væri þar um að ræða gagnkvæm réttindi og skyldur.


Ólafur sagði að stundum gæti staða atvinnurekanda og starfsmanns verið ójöfn þegar til ágreinings kæmi, ekki síst þegar um minni fyrirtæki væri að ræða. „Það eru nánast allir launþegar á íslenskum vinnumarkaði í stéttarfélagi, en það eru ekki endilega allir atvinnurekendur í félögum eða samtökum atvinnurekenda,“ sagði Ólafur. „Starfsmaðurinn á ævinlega auðvelt með að leita til síns stéttarfélags, sem gjarnan gengur fram fyrir hans hönd af mikilli hörku og með ýtrustu kröfur. Ég held að það sé alveg rétt hjá Kristjáni að það eru margir vinnuveitendur, ekki síst í smærri fyrirtækjum, sem vita ekki alveg hvert þeir eiga að leita og þekkja ekki sinn rétt. En til þess eru nú félög eins og þetta sem ég stýri, Félag atvinnurekenda, og önnur samtök atvinnurekenda, að bakka vinnuveitandann upp í svona málum. Við erum með okkar snærum lögfræðinga sem eru sérhæfðir í vinnurétti og kunna að taka á svona málum. Oftast nær, þegar lögfræðingarnir okkar fara að tala við lögfræðinga stéttarfélaganna, finnast nú lausnir á endanum.“

Brotthlaup úr starfi myndar bótaskyldu
Tilvik eins og þau sem Kristján Berg lýsti í viðtalinu á Bylgjunni, eru kölluð brotthlaup úr starfi. Ólafur benti á að um slík tilvik giltu lög, reglur og dómafordæmi. „Starfsmanni ber að vinna uppsagnarfrestinn. Hann þarf að segja upp skriflega og ef hann vill ekki vinna uppsagnarfrestinn þarf að vera samkomulag um það milli starfsmannsins og vinnuveitandans. Ef starfsmaðurinn hleypur bara frá sínum skyldum, þá felst oft í því mikill kostnaður og óþægindi fyrir vinnuveitandann.“

Aðspurður hvort þá myndaðist bótaskylda starfsmanns gagnvart vinnuveitanda svaraði Ólafur því eindregið játandi. „Það er alveg klárlega bótaskylda starfsmanns í slíkum málum. Það eru dómafordæmi sem hafa mótað þá venju að ef í fyrsta lagi starfsmaður hleypst úr starfi þá fær hann ekki borgaðan neinn uppsagnarfrest af því að hann er ekki að vinna og í öðru lagi hefur vinnuveitandinn heimild til að hýrudraga hann; halda eftir allt að helmingi af þeim launum sem hann hefði átt að fá greidd á uppsagnarfrestinum, það er að segja að því gefnu að hann eigi svo mikið inni hjá vinnuveitandanum. En það er alveg klárt mál að slíkt brot á ráðningar- og kjarasamningi leiðir til bótaskyldu. Svo þekkja atvinnurekendur hins vegar ekki alltaf rétt sinn og eru kannski ekki mikið að sækja hann. Það getum við alla jafna aðstoðað menn með.“

Mikilvægt að gera ráðningarsamninga
Ólafur sagðist ekki geta lagt nógu mikla áherslu á að atvinnurekendur gerðu ráðningarsamninga við starfsfólk sitt, en skylda er að gera slíkan samning innan tveggja mánaða frá ráðningu. Mikilvægt væri að þar væri vísan til kjarasamningsins, sem starfsmaðurinn vinnur samkvæmt, og upplýsingar um t.d. kjör, uppsagnarfrest og annað slíkt ef það væri umfram kröfur kjarasamninga. „Þá eru réttindi og skyldur beggja meira á hreinu og ef einhver ágreiningur kemur upp er öll sönnun miklu auðveldari. Það kemur okkur oft mjög á óvart þegar ný fyrirtæki koma inn í félagið hjá okkur sem hafa jafnvel verið í rekstri árum og áratugum saman og það er ekki ráðningarsamningur við neinn starfsmann. Þá er það gjarnan það fyrsta sem ég ráðlegg mönnum, að gera slíka samninga við alla starfsmenn,“ segir Ólafur.

Hvað ef grunur er um misnotkun á veikindarétti?
Ólafur var spurður út í tilvik þar sem upp koma veikindi starfsmanns á uppsagnarfresti. „Það er annað mál sem við erum gjarnan að aðstoða félagsmenn okkar með. Það virðist vera ákveðin tilhneiging til þess að fólk missi heilsuna á uppsagnarfrestinum, eftir að hafa verið sagt upp. Þá vaknar kannski grunur um að fólk sé að misnota ákvæði kjarasamninga um veikindarétt. Í slíkum tilvikum á atvinnurekandinn þann rétt að kalla til dæmis til trúnaðarlækni sem skoðar þá viðkomandi starfsmann og reynir að kveða upp úr um hvort hann er í raun óvinnufær vegna veikinda.“

Framkvæmdastjóri FA minnti að lokum á að það væru tvær hliðar á öllum málum og atvinnurekendur bæru ríkar skyldur gagnvart starfsfólki. Brotthvarf úr starfi gæti verið réttlætanlegt og bótalaust ef vinnuveitandinn hefði ekki uppfyllt sínar skyldur, en starfsmaður þyrfti þá að vera búinn að kvarta undan því með sannanlegum hætti og gefa atvinnurekandanum einhverja daga til að bæta úr vanefndum sínum.

 

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning