Bandalag um óbreytt ástand

18.11.2016

ThjodarsamtalGunnar Bragi Sveinsson landbúnaðarráðherra hefur nú skipað starfshóp sem Alþingi ákvað að yrði settur á fót til endurskoða búvörusamningana sem gerðir voru fyrr á árinu. Skipan ráðherra kemur mánuði of seint; samkvæmt bráðabirgðaákvæði í búvörulögum sem Alþingi samþykkti í haust átti að skipa hópinn fyrir 18. október.

Samsetning hópsins hefur sömuleiðis breyst frá því sem atvinnuvegaráðuneytið tilkynnti 21. október síðastliðinn. Þá áttu sjö manns að sitja í hópnum. Ráðherra tilnefndi formann hópsins, BSRB og ASÍ áttu að deila einum fulltrúa, Neytendasamtökin að hafa einn, Bændasamtökin tvo, Samtök afurðastöðva einn og Samtök atvinnulífsins einn.

Félag atvinnurekenda andmælti því harðlega að vera haldið utan við hópinn, en Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, hafði heitið því að félagið myndi ásamt fulltrúum margvíslegra hagsmuna eiga sæti í hópnum í nafni „þjóðarsamtals“ og „þjóðarsáttar“ um landbúnaðinn. „Tryggja skal aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni,“ sagði í lagaákvæðinu sem Alþingi samþykkti. Landbúnaðarráðherra hefur ekki virt félagið svars.

Fjölgað um fjóra í hópnum
BSRB og ASÍ andmæltu því að eiga að deila einum fulltrúa og neituðu að tilnefna í hópinn nema samtökin fengu hvort sinn fulltrúann í hópnum. Við þessu varð landbúnaðarráðherra, en gerði um leið þá breytingu á starfshópnum að taka fulltrúann af Samtökum afurðastöðva og fjölga í staðinn fulltrúum Bændasamtakanna í þrjá, um leið og hann bætir þremur fulltrúum ráðuneytisins inn í hópinn. Samtals var því fjölgað í hópnum um fimm – án þess að FA fengi þar sæti.

Þar með eiga Bændasamtökin og ríkið, sem gerðu búvörusamningana, átta fulltrúa í tólf manna starfshópi. Launþegar eiga tvo fulltrúa, neytendur einn og atvinnulífið einn.

Forkastanleg vinnubrögð ráðherra á lokametrunum
„Þetta eru forkastanleg vinnubrögð hjá ráðherranum á síðustu metrunum í embætti,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Gengið er á bak loforðum sem stjórnarmeirihlutinn gaf þegar hann vildi láta í það skína að hann sæktist eftir þjóðarsamtali og þjóðarsátt um stefnuna í landbúnaðarmálum. Í stað þess að kalla eftir öllum sjónarmiðum er gagnrýnendum landbúnaðarkerfisins, sem hvað eindregnast hafa talað fyrir auknu frelsi og samkeppni í greininni, haldið utan við þjóðarsamtalið. Tök viðsemjendanna í búvörusamningunum, ríkisins og bænda, á umræðunni eru hert. Þarna er greinilega verið að búa til bandalag um óbreytt ástand.“

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning