Félag atvinnurekenda telur að bann við blóðmerahaldi, sem viðbrögð við myndböndum sem sýna brot á dýravelferð, væri utan marka alls meðalhófs. Félagið leggst því eindregið gegn samþykkt frumvarps Ingu Sæland og fleiri þingmanna, þar sem lagt er til að banna töku blóðs úr fylfullum merum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því vörur til sölu.
Í umsögn FA til atvinnuveganefndar Alþingis er farið yfir þann ramma regluverks og eftirlits sem er í gildi varðandi blóðtöku úr hryssum og er mun strangari en varðandi flesta aðra hagnýtingu dýra í landbúnaði. Jafnframt er fjallað um viðbrögð Ísteka ehf., sem vinnur lyfjaefni úr hrossablóði, við brotum sem sýnd voru á myndskeiðum í heimildarmynd dýraverndunarsamtakanna AWF/TSB (Animal Welfare Foundation/Tierschutzbund Zürich). Fyrirtækið hefur m.a. sagt upp samningum við hrossabændur sem uppvísir urðu að brotum og sett af stað viðamikla umbótaáætlun til að bæta fræðslu meðal hrossabænda og eftirlit með starfseminni. Þá er vikið að rannsókn Matvælastofnunar á málinu og vinnu starfshóps, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur sett á fót til að fjalla um blóðtöku úr fylfullum hryssum, regluverk og eftirlit í kringum starfsemina.
Dýravelferð og hagnýting vel samræmanleg
FA ítrekar í umsögninni þá afstöðu sína að mikilvægt er að hugað sé vel að dýravelferð í öllum landbúnaði. „Hagnýting afurða lifandi dýra er vel samræmanleg dýravelferð ef rétt er á haldið. Skýrar reglur og skilvirkt eftirlit eru að sjálfsögðu lykilatriði í slíkri starfsemi. Það væri hins vegar jafnfráleitt að ætla að banna blóðmerahald eins og það leggur sig vegna þeirra tveggja tilvika, sem sýnd eru í áðurnefndri heimildarmynd, og að ætla að banna kúa- eða sauðfjárbúskap, eggjabúskap eða svínarækt, vegna afmarkaðra tilvika á einstökum bæjum, þar sem farið er illa með skepnur. Eftirlit kemur ekki í veg fyrir slík tilvik, en hindrar hins vegar að þau séu látin óátalin eða endurtaki sig án afleiðinga,“ segir í umsögn FA.
Atvinnuréttindi stjórnarskrárvarin
Í umsögninni segir ennfremur: „Það er því óbreytt mat FA að næði frumvarpið fram að ganga væri verið að ganga af mikilvægri búgrein dauðri og hindra arðbæra útflutningsstarfsemi, sem skilar verulegum verðmætum til þjóðarbúsins. Slík framganga löggjafans væri langt utan marka alls meðalhófs, enda atvinnuréttindi manna stjórnarskrárvarin. Fráleitt væri að Alþingi samþykkti frumvarpið áður en fyrir liggur hvaða tillögur áðurnefndur starfshópur ráðherra kann að gera um breytingar á regluverki um og eftirliti með blóðtöku úr hryssum. FA leggst því eindregið gegn samþykkt frumvarpsins.“