Sex af tólf stærstu sveitarfélögum landsins hyggjast lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði, samkvæmt framlögðum frumvörpum til fjárhagsáætlana eins og þau líta út eftir fyrri umræðu í sveitarstjórn. Sjö sveitarfélög hyggjast lækka álagningarhlutfall á íbúðarhúsnæði. Þrátt fyrir lækkanir álagningarhlutfallsins er lítið um að fasteignaskattur lækki í raun eða minna en það 2,5% mark sem Samband íslenskra sveitarfélaga beindi til sveitarfélaganna við gerð kjarasamninga í vor að halda gjaldahækkunum innan við.
Breytingar á álagningarhlutfalli og skattbyrði í þessum 12 sveitarfélögum má sjá í töflunni hér að ofan. Upplýsingar úr töflunni birtast einnig í Morgunblaðinu í dag. Eins og sjá má er Akraneskaupstaður eina sveitarfélagið sem beinlínis lækkar tekjur sínar af fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði á milli ára. Í sumum sveitarfélögum sem lækka skattprósentuna lítið eitt verður hækkun skattbyrði engu að síður drjúg, vegna mikilla hækkana fasteignamats. Í Mosfellsbæ stefnir þannig í tæplega 14% hækkun fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði þrátt fyrir breytingu á álagningarprósentu. Í Garðabæ stefnir í 11,7% hækkun ef ekkert verður að gert, en meirihluti bæjarstjórnar hefur boðað að álagningarhlutföll verði endurskoðuð á milli umræðna.
Átta af tólf hafa lækkað
Félag atvinnurekenda hóf baráttu gegn gegndarlausum hækkunum á fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði árið 2016 og hefur síðan sent sveitarfélögum, þar sem aðildarfyrirtæki félagsins starfa, fjölda erinda og áskorana um lækkun á álagningarhlutfalli fasteignaskatts til að mæta fordæmalausum hækkunum fasteignamatsins. Árangurinn má sjá í neðri töflunni. Átta sveitarfélög af tólf hafa lækkað álagningarprósentuna. Mesta breytingin hefur orðið í Hafnarfirði og á Akranesi, þar sem álagningarhlutfallið hefur lækkað úr 1,65% í 1,4%. Bæði þessi sveitarfélög hafa einsett sér að laða að sér fyrirtæki.
Sem fyrr vekur athygli algjört aðgerðaleysi Reykjavíkurborgar, þar sem meirihluta skrifstofu- og verslunarhúsnæðis í landinu er að finna. Borgin hefur allan tímann haldið fasteignaskatti á fyrirtæki í lögbundnu hámarki. Vestmannaeyjabær hækkaði skattinn upp í hámarkið árið 2017 en hyggst nú lækka hann að nýju. Seltjarnarnes hefur ekki hreyft skatthlutfallið en á það er að líta að það er það lægsta í stóru sveitarfélögunum. Fjarðabyggð hefur heldur ekki séð ástæðu til að breyta álagningarhlutfallinu.
FA, Húseigendafélagið og Landssamband eldri borgara sendu fyrr í vikunni frá sér áskorun til sveitarfélaganna um að gera það sem gera þarf, nú á milli umræðna um fjárhagsáætlanir, til að hækkun skattbyrði verði ekki meiri en 2,5%.