Beint flug WOW greiðir fyrir Indlandsviðskiptum

14.06.2018
Bala Kamallakharan var endurkjörinn formaður ÍIV.

Beint flug WOW Air til Nýju-Delí, sem hefst í desember næstkomandi, mun greiða fyrir viðskiptum á milli Indlands og Íslands. Þetta var samdóma álit þeirra Rajivs Kumar Nagpal, sendiherra Indlands á Íslandi, og Bala Kamallakharan, formanns Indversk-íslenska viðskiptaráðsins, en þeir voru á meðal ræðumanna á málþingi sem sendiráð Indlands, Íslandsstofa og ÍIV stóðu fyrir í dag um tækifæri í Indlandsviðskiptum.

Nagpal sendiherra kynnti á málþinginu skýrsluna „Áfram Indland“ eða „India Surging Ahead 2018“, en þar er lýst ýmsum aðgerðum indverskra stjórnvalda til að greiða fyrir fjárfestingu og viðskiptum. Nagpal sagðist þeirrar skoðunar að Ísland og Indland hefðu enn ekki náð að nýta til fulls þau tækifæri sem lægju í samstarfi og viðskiptum ríkjanna, en spáði því að það myndi breytast á næstunni, meðal annars vegna beins flugs á milli landanna, sem myndi gjörbreyta samskiptunum og efla viðskiptatengsl. Nagpal nefndi að lyfja- og líftæknigeirinn, orkugeirinn, ekki síst nýting jarðhita, og fleiri svið indversk efnahagslífs þar sem íslensk fyrirtæki ættu mikla möguleika væru opin fyrir samstarfi og fjárfestingum.

Frumkvöðullinn og fjárfestirinn Bala Kamallakharan er stofnandi Startup Iceland og sagðist hafa mikinn áhuga á að stuðla að samstarfi indverskra og íslenskra sprotafyrirtækja. Startup Iceland mun starfrækja svokallað frumkvöðlastúdíó og sagði Bala áform sín vera þau að fá 3-5 sprotafyrirtæki frá Indlandi hingað til lands og koma þeim af stað með þróun viðskiptahugmynda. Jafnframt myndi hann reyna að ýta undir að álíka mörg íslensk sprotafyrirtæki gætu prófað lausnir sínar á Indlandsmarkaði. Bala sagðist sannfærður um að samstarf af þessu tagi gæti leyst mikla krafta úr læðingi, fyrirtækjum frá báðum löndum til hagsbóta.

Andri Marteinsson, forstöðumaður hjá Íslandsstofu, sagði frá samnorræna verkefninu Snjallborgir eða Nordic Sustainable Cities, en markmið þess er að stuðla að tækni- og nútímavæðingu 100 borga á Indlandi, einkum á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, skipulagsmála, stafrænna fjarskipta, sorphirðu og frárennslismála. Töluverð viðskipta- og fjárfestingatækifæri felast í verkefninu fyrir norræn fyrirtæki. Andri sagðist telja að bæði íslensk einkafyrirtæki og sveitarfélög eða fyrirtæki á þeirra vegum gætu tekið þátt í verkefninu.

Loks sagði Vigdís Guðmundsdóttir, eigandi DísDís & Co Saumastúdíós, verslunar og veitingastaðar í Pondicherry á Suðaustur-Indlandi, frá fyrirtækjarekstri sínum í tískugeiranum á Indlandi. Hún sagðist telja að mikils misskilnings gætti um slæmar vinnuaðstæður og barnaþrælkun í textíliðnaði á Indlandi, hún hefði ekki kynnst slíku í sínum rekstri þar. Þá hefði komið henni á óvart hversu auðvelt væri fyrir útlendinga að stofna fyrirtæki. Vissulega tæki tíma að fá tilskilin leyfi, en dvöl hennar á Indlandi hefði kennt henni þolinmæði.

Að loknu málþinginu var haldinn aðalfundur Íslensk-indverska viðskiptaráðsins. Bala Kamallakharan var endurkjörinn formaður, en meðstjórnendur í stjórn ráðsins eru Anna Hedvig Þorsteinsdóttir, sölustjóri hjá Lýsi, og Svanhvit Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs WOW Air.

Glærur Rajivs Kumar Nagpal

Glærur Andra Marteinssonar

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning