Bláa lónið er ferðamannaverslun ársins 2018

22.03.2019
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs afhendir fulltrúum Bláa lónsins Njarðarskjöldinn.

Verslun Bláa lónsins á Laugavegi hlýt­ur Njarðarskjöld­inn og er ferðamanna­versl­un árs­ins 2018. Verðlauna­af­hend­ing­in fór fram í Listasafni Reykjavíkur í gær en þetta er í 23. skipti sem verðlaun­in eru veitt. Félag atvinnurekenda stendur að verðlaununum ásamt Reykjavíkurborg og fleiri félagasamtökum og fyrirtækjum. Geysir heima við Skólavörðustíg fékk Freyjusóma, viðurkenningu til þeirrar verslunar sem kemur með ferskastan andblæ í ferðamannaverslun í miðbænum.

Dómnefnd lagði mat á verslanir sem voru tilnefndar til verðlaunanna. Horft er  til markaðs- og kynningarmála, svo sem auglýsinga, vefjar og útlits almennt. Aðrir þættir eru einnig skoðaðir sérstaklega svo sem þjónustulund, afgreiðslutími, merkingar um endurgreiðslu virðisaukaskatts, lýsing og þekking á söluvörunum.

Verslun Bláa Lónsins hlaut Njarðarskjöldinn 2018 fyrir stílhreina verslun og faglega þjónustu.  Í niðurstöðu dómnefndar segir að verslunin sé hlýleg, björt og fallega uppsett. Glæsileg hönnun í hvívetna og útstillingar séu einkennandi fyrir vörumerkið. Þjónustan beri af og vakti sérstaka athygli dómnefndar hversu starfsfólkið er allt í senn metnaðarfullt  og faglegt í framkomu og sýni frumkvæði. „Það er einfaldlega einstök upplifun að koma inn í verslun Bláa lónsins á Laugavegi,“ segir í áliti dómnefndar.

Geysir heima fær Freyjusómann
Freyjusómi er veittur þeirri verslun sem sem þykir koma með ferskan andblæ í verslunarrekstur á ferðamannamarkaði í borginni fyrir árið 2017. Verslunin Geysir heima fær Freyjusómann 2018 fyrir að koma með ferskan andblæ í rótgróna verslunarflóru Skólavörðustígsins.

Í umsögn dómnefndar segir að starfsfólkið veiti afslappaða en faglega þjónustu í bjartri og fallegri verslun þar sem natnin við smáatriðin sé augljós. Blanda af eldri innréttingum og nýjum stílhreinum vörum gefi versluninni heildstætt, ferskt og tímalaust útlit sem rími vel við ímynd fyrirtækisins. „Það er eins og að ganga inn í annan og bjartari heim þegar komið er inn í Geysi Heima“.

Starfsmenn Geysis heima taka við Freyjusóma.

Metnaður og dugnaður verslunareigenda
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, sagði í ræðu sinni við verðlaunaafhendinguna að miðja miðborgarinnar teygðist alla leið frá Hlemmi og út á Granda með góðri blöndu af íbúðabyggð, verslunum, veitingahúsum, vinnustöðum og menningarhúsum á eina og sama punktinum sem tryggði iðandi mannlíf í borginni á öllum tímum dags. „Sú fjölbreytta verslun og þjónusta sem hægt er að sækja í miðborgina ber vitnisburð um þann metnað og dugnað sem einkennir verslunareigendur í miðbæ Reykjavíkur,“ sagði Þórdís.

Að hvatningarverðlaununum standa Tax Free-fyrirtækin Global blue, Planet Payment Island og Iceland Taxfree ásamt Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi atvinnurekenda, Miðborginni okkar og Reykjavíkurborg. Bjarndís Lárusdóttir, skrifstofustjóri FA, hefur um árabil verið fulltrúi félagsins í dómnefndinni.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning